Erlent

Orðinn stærsti skógareldur í sögu Kaliforníu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tugir þúsunda hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna skógareldsins Tómasar.
Tugir þúsunda hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna skógareldsins Tómasar. Vísir/afp
Skógareldurinn Tómas sem nú gengur yfir Kaliforníu er orðinn sá stærsti sem geisað hefur í sögu ríkisins. Slökkviliðsmenn hafa barist við eldinn svo vikum skiptir og þá hafa tugir þúsunda þurft að yfirgefa heimili sín.

Tómas hefur nú lagt undir sig yfir 1100 ferkílómetra landsvæði, að því er fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins. Svæðið er því stærra að flatarmáli en New York-borg, Brussel og París samanlagt.

Eldurinn kviknaði í Santa Paula í Kaliforníu-ríki í byrjun desember en hefur fært sig vestur og út að ströndinni. Tugir þúsunda hafa þurft að yfirgefa heimili sín, flestir í grennd við Santa Barbara. Yfir þúsund byggingar hafa auk þess orðið eldinum að bráð og þá hefur einn slökkviliðsmaður látist í baráttunni við hann.

Gert er ráð fyrir að áfram hægist á skógareldinum næstu daga en slökkvilið á svæðinu hafa að mestu náð tökum á honum.

Tómas er einn fjölmargra skógarelda sem geisað hafa í ríkinu á árinu. Gróðurhúsaáhrif og hlýnun jarðar eru talin ein orsök þess að tíðni stórra skógarelda hefur aukist síðustu ár.

Næststærsti skógarheldur sem geisað hefur í Kaliforníu er Cedar-skógareldurinn. Sá kviknaði árið 2003 í grennd við San Diego og lagði undir sig rétt tæpa 1106 ferkílómetra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×