Viðskipti innlent

Óútskýrður launamunur mælist í fyrsta sinn konum í vil hjá Orkuveitunni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Enn ríkir þó nokkur kynjaskipting innan fyrirtækisins að sögn Sólrúnar en kynjamunur er greinilegur í störfum fyrirtækisins.
Enn ríkir þó nokkur kynjaskipting innan fyrirtækisins að sögn Sólrúnar en kynjamunur er greinilegur í störfum fyrirtækisins. Vísir/Pjetur/OR
Konur mældust með 0,2 prósent hærri laun en karlar hjá Orkuveitu Reykjavíkur um síðustu mánaðamót. Þetta er í fyrsta skipti sem óútskýrður kynbundinn launamunur mælist konum í vil hjá fyrirtækinu.



Sólrún Kristjánsdóttir, starfsmannastjóri Orkuveitu Reykjavíkur.OR
Reyna að dansa báðum megin við línuna

Orkuveita Reykjavíkur hefur unnið af kappi undanfarin ár við að útrýma kynbundnum launamun. Fyrirtækið hefur nú í nokkur skipti fengið árlega jafnlaunavottun frá jafnlaunaúttekt PwC. Í júní á þessu ári mældist óútskýrður kynbundinn launamunur 1,4 prósent körlum í vil. Um síðustu mánaðamót mældist munurinn hins vegar 0,2 prósent – og þá höfðu konur vinninginn.

Sólrún Kristjánsdóttir, starfsmannastjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir í samtali við Vísi að Orkuveitan fagni þessum niðurstöðum.

„Við höfum semsagt verið að vinna síðustu misseri að því, með fyrirtæki sem heitir PayAnalytics, að þróa tól sem við getum notað sjálf í sambærilegar greiningar og PwC,“ segir Sólrún. Í haust hafi svo verið tekin upp ný aðferð til greiningar á óútskýrðum, kynbundnum launamun. Þessum launamun vill útrýma alveg.

„Í fyrsta skipti í þessari launakeyrslu fór launamunurinn hinum megin við núllið, sem þýðir að við erum með 0,2 prósent launamun konum í vil. Ástæðan fyrir því að við erum svona glöð með það er að launamunurinn verður náttúrulega aldrei núll prósent. Við viljum reyna að dansa báðum megin við línuna, það er eðlilegt,“ segir Sólrún.

Hún segir hina nýju aðferð gera greiningu á launamuninum þægilegri og taki mun styttri tíma en áður. Fyrirtækið mun þó áfram senda gögn til PwC og fá þannig vottun óháðs aðila.

Kynjaskipting ríkjandi sem jafnlaunavottanir geta ekki hróflað við

Enn ríkir þó nokkur kynjaskipting innan fyrirtækisins að sögn Sólrúnar en kynjamunur er greinilegur í störfum fyrirtækisins. Hún segir orkugeirann karllægan en meirihluti sérfræðinga hjá fyrirtækinu eru til að mynda karlar og karlar eru jafnframt 95 prósent iðnaðarmanna. Hlutföllin eru jöfn í hópi stjórnenda, eða því sem næst, en 51 prósent stjórnenda fyrirtækisins eru konur og þá eru konur meirihluta í skrifstofustörfum. Sólrún segir Orkuveituna vinna að því að leiðrétta þennan mun og leitist við að ráða konur í hefðbundin „karlastörf“ og öfugt.

Í hópi ófaglærðra eru kynjahlutföllin einnig jöfn en innan þess hóps er þó mikil kynjaskipting, karlar vinna verkamannastörf og konur eru í ræstingum og matstofustörfum. Sólrún segir að fyrir nokkrum árum hafi lægri laun fengist fyrir kvennastörfin en sambærileg karlastörf. Fyrirtækið hafi nú leiðrétt það.

„Að mínu mati er þetta aðalástæðan fyrir kynbundnum launamun í samfélaginu, það er að við réttlætum alltaf að störfin sem karlar sinna í meiri mæli séu betur borguð en störfin sem konur sinna í meiri mæli,“ segir Sólrún.

„Allar jafnlaunagreiningar í heiminum munu ekki ná að útrýma þessu, því það eru fyrirtækin sjálf sem þurfa að flokka og ákveða verðmæti starfanna.“


Tengdar fréttir

Ráðherra vill meiri launahækkun til kvennastétta en annarra

Þorsteinn Víglundsson telur æskilegt að kvennastéttir fái launahækkun í komandi kjaraviðræðum umfram aðra hópa. Formaður BHM segir gott að ráðherra sé kominn í lið með sér hvað það varðar. Hugmyndirnar séu þó augljóslega komnar fram núna í ljósi komandi kosninga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×