Innlent

Rauð jól á suð­vestur­horninu en hvít jól annars staðar á landinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það verða rauð jól í Reykjavík í ár, sem og annars staðar á suðvesturhorninu.
Það verða rauð jól í Reykjavík í ár, sem og annars staðar á suðvesturhorninu. Vísir/GVA

Það verða hvít jól nánast um allt land nema á suðvesturhorninu við Faxaflóa segir Daníel Þorláksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins vakna við auða jörð nú á aðfangadagsmorgun og segir Daníel líkur á einhverjum éljum síðdegis. Ef þau koma verður það þó ekki mikið.

Aðspurður hvort að það muni eitthvað snjóa í Reykjavík á morgun, jóladag, segir Daníel að ef það komi ekki él síðdegis í dag þá sé engin úrkoma í kortunum næstu tvo til þrjá daga.

Það er hins vegar snjór nánast um allt Norðurland og þá hefur snjóað víða á Suðurlandi. Þá hélt áfram að snjóa á Vestfjörðum í nótt og á Austurlandi er víða snjóhula og éljagangur. Í Vestmannaeyjum er svo líka kominn snjór.

Spurður út í ferðaveðrið segir Daníel að það séu snjóþekja og hálkublettir víða um land. Margar heiðar séu opnar en það geti þó verið lélegt skyggni víða. Nánari upplýsingar um færð á vegum má nálgast á vef Vegagerðarinnar.

Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga:
Norðaustan 10-18 m/s, en heldur hægari NA-lands. Víða él og frost 0 til 7 stig. Norðan 8-13 á morgun. Bjartviðri sunnan heiða, annars él. Frost 2 til 10 stig, kaldast í innsveitum. Norðaustan 13-18 og snjókoma við norðurströndina annað kvöld.

Á þriðjudag (annar í jólum) og miðvikudag:
Norðaustanátt 5-10 m/s en víða 10-15 við ströndina. Él norðan til á landinu, en bjartviðri syðst. Frost 2 til 12 stig, kaldast inn til landsins.

Á fimmtudag og föstudag:
Austlæg átt með éljum austanlands, allra nyrst og við suðurströndina, annars skýjað með köflum. Áfram kalt í veðri.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.