Bíó og sjónvarp

Verstu bíóskellir ársins 2017

Birgir Olgeirsson skrifar
Magaskellirnir urðu nokkrir í ár.
Magaskellirnir urðu nokkrir í ár. IMDB
Á þessu ári voru gefnar út sex kvikmyndir sem áttu að sjá kvikmyndaverum fyrir tekjum um ókomna framtíð í formi röð framhaldsmynda. Litlar líkur eru á því að haldið verði áfram með þær áætlanir, því þessar myndir voru á meðal verstu bíóskella ársins. Flestar þeirra voru byggðar á áður útgefnu efni, þar á meðal skáldsögum, leikföngum, teiknimyndablöðum, sjónvarpsþáttum eða þjóðsögum.

Undanfarin ár hafa kvikmyndaverin lagt mikla áherslu á kvikmyndaverkefni sem byggð eru á áður útgefnu efni. Það hefur sparað þeim mikið þegar kemur að markaðssetningu því áhorfandinn á þá að kannast við myndina áður en hann sér hana. Hvort slæmt gengi slíkra myndina í ár muni verða til þess að breyting verði á skal ósagt látið, enda malar þessi formúla gull líkt og sjá má á gengi þeirra mynda sem voru hvað vinsælastar í ár.



Fjölmiðillinn Vulture
 tók saman nokkrar myndir sem magalentu hvað harkalegast í miðasölum kvikmyndahúsa í ár. Myndirnar rökuðu jafnvel sumar ágætlega inn, en hins vegar langt undir væntingum kvikmyndaveranna sem framleiddu þær með miklum tilkostnaði.

The Dark Tower

Þessi skáldsaga Stephen King hafði verið mikið vandræðabarn innan Hollywood. Marga dreymdi um að festa þessa sögu á filmu en verkefnið gekk hins vegar eins og heit kartafla á milli kvikmyndagerðarmanna og kvikmyndavera áður en hún kom loksins út í ágúst síðastliðnum.

Myndin skartaði Idris Elba og Matthew McConaughey í aðalhlutverkum en gagnrýnendur sögðu þessa rúmlega 90 mínútna löngu kvikmynd langt frá því að fanga sögu Stephen King, sem telur einar sjö bækur. Úr varð flöt og óeftirminnileg kvikmynd, sem átti að marka upphaf kvikmyndaseríu, en þénaði aðeins fimmtíu milljónir dollara í Bandaríkjunum. Má ætla að búið sé að leggja þessa seríu á hilluna, í bili að minnsta kosti.

Baywatch

Þessari mynd var ætlað að fylgja eftir velgengni kvikmyndarinnar 21 Jump Street. Sú kvikmynd var líkt og Baywatch endurgerð á gömlum sjónvarpsþáttum, skartaði Jonah Hill og Channing Tatum í aðalhlutverkum. Myndin var stranglega bönnuð börnum vegna orðbragðs, nektar og ofbeldis og var ætlunin að gera svipaða hluti með Baywatch-kvikmyndinni.

Miðasölumaskínan The Rock var fengin í verkið ásamt Zach Effron en myndin þénaði aðeins 23 milljónir dollara fyrstu sýningarhelgina, 20 milljónum minna en kvikmyndaverið hafði vonast eftir. Ofan á allt fékk myndin slæma dóma og kenndu framleiðendur hennar vefnum Rotten Tomatoes um slæma aðsókn.

King Arthur: Legend of the Sword

Kvikmyndaverið Warner Bros var átta ár að koma þessari mynd á hvíta tjaldið. Charlie Hunnam úr Sons of Anarchy var fenginn til að leika aðalhlutverkið en hann náði þó engu að bjarga. Myndin kostaði 175 milljónir dollara í framleiðslu en náði aðeins 15 milljónum dollara til baka fyrstu sýningarhelgina í Bandaríkjunum. Í heildina náði hún um 148 milljónum í miðasölu kvikmyndahúsa sem er langt undir væntingum.

Warner bros ætlaði að gera sex framhaldsmyndir byggðar á þessari sögu, úr því verður ekki. Leikstjóra myndarinnar, Guy Ritchie, var kennt um fyrir innihaldslausa kvikmyndagerð þar sem útlitið ræður ríkjum og þá voru menn sannfærðir um að Charlie Hunnam væri ekki sú stjarna sem þarf til að draga svo rándýran kvikmyndavagn.

Monster Trucks

Þessi tölvubrellumynd var nánast úrskurðuð látin áður en hún komst í kvikmyndahús í janúar síðastliðnum. Sumarið áður hafði myndin verið höfð að háð og spotti á samfélagsmiðlum eftir að fyrsta stiklan var frumsýnd. Kvikmyndaverið Paramount varð svo stressað fyrir gengi myndarinnar að það tilkynnti að það myndi afskrifa 115 milljónir dollara af fyrirhuguðum tekjum myndarinnar. Myndin var jörðuð af gagnrýnendum og fékk aðeins 64 milljónir til baka af 125 milljóna framleiðslukostnaði.

Valerian and the City of a Thousand Planets

Franski leikstjórinn Luc Besson hafði lengi gengið með þetta hugarfóstur sem var byggt á franskri teiknimyndasögu frá sjöunda áratug síðustu aldar. Fáir Bandaríkjamenn höfðu heyrt um þá sögu en Besson var hvergi banginn og ákvað að framleiða dýrustu „sjálfstæðu” mynd allra tíma, upp á 180 milljónir dollara, og jafnframt dýrustu evrópsku kvikmynd allra tíma.

Valerian hefði þurft að græða 400 milljónir dollara í kvikmyndahúsum ef hún átti að skila hagnaði. Framleiðslukostnaðurinn var vissulega „bara” 180 milljónir dollara en þá á eftir að auglýsa myndina, sem er rándýrt og í mörgum tilfellum dýrara en að framleiða sjálfa myndina.

Myndin þénaði fjörutíu milljónir dollara fyrstu sýningarhelgina og aðeins 225 milljónir dollara þegar upp var staðið.

Ghost in the Shell

Þessi mynd er byggð á japanskri teiknimyndasögu, skartaði stórstjörnunni Scarlett Johansson í aðalhlutverki en fór nánast fram hjá kvikmyndaáhorfendum. Myndin kostaði 110 milljónir dollara í framleiðslu en þénaði aðeins 40 milljónir dollara í Bandaríkjunum.

Hvítþvotti var kennt um þar sem Johansson var fengin til að leika japanskan karakter og þá voru aðdáendur teiknimyndasögunnar langt frá því að vera spenntir fyrir þessari mynd.

Transformers: The Last Knight

Um er að ræða fimmtu Transformers-myndina og hefur þeim aldrei gengið jafn illa í kvikmyndahúsum. Fyrri myndirnar voru vanalega að þéna í kringum milljarð dollara í kvikmyndahúsum á heimsvísu en þessi náði aðeins 600 milljónum dollara. Transformers-þreytu Bandaríkjamanna er þar mest um að kenna, því þeir nenntu varla að sjá myndina ef marka má miðasölutölur þaðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×