Innlent

Hálka og hálkublettir víða um land og aðstæður geta breyst með litlum fyrirvara

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Veðurstofan hvetur fólk til þess að fylgjast vel með veðurspám og upplýsingum um færð.
Veðurstofan hvetur fólk til þess að fylgjast vel með veðurspám og upplýsingum um færð. Skjáskot/Veðurstofa

Það er hálka eða hálkublettir víða á suður og suðvesturlandi í dag samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Það er einnig hálka eða hálkublettir á flestum leiðum á Vesturlandi. Hvasst er á Snæfellsnesi og ófært á Fróðárheiði.

Á Vestfjörðum er víða hálka eða snjóþekja og einhver éljagangur. Ófært er norður í Árneshrepp sem og yfir Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar. Það er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum á Norðurlandi og víða éljagangur. Þæfingur er á Siglufjarðarvegi.

Hálka eða snjóþekja eru á Austurlandi og sums staðar töluverður snjór en verið er að hreinsa. Hálka og hálkublettir eru á Suðausturlandi. Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara einnig vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi.

Í dag er vaxandi norðlæg átt og él á norðan- og austanverðu landinu, en annars bjartviðri að mestu. Hvassast verður suðaustan til. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands verður snjókoma eða él á norður- og austurlandi en annars úrkomulaust að kalla.

Norðlæg átt verður ríkjandi næstu daga samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar. Ofankoma, einkum bundin við norðan- og austanvert landið, en lengst af bjart og þurrt suðvestantil. Fremur kalt í veðri. Við svona aðstæður getur færð á vegum spillst með litlum fyrirvara og er fólk hvatt til að fylgjast vel með veðurspám og upplýsingum um færð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.