Erlent

Brexit fordæmi fyrir Tyrki

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands.
Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands. Nordicphotos/AFP
Hagstætt útgöngusamkomulag Breta og Evrópusambandsins (ESB) gæti sett gott fordæmi fyrir framtíðarsamskipti þess við Tyrki og Úkraínumenn sem og önnur ríki sem ekki eiga aðild að sambandinu. Þetta sagði Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, í viðtali við þýska miðilinn Funke í gær.

Tyrkir hafa lengi sóst eftir aðild að ESB og þá hefur einnig verið rætt um mögulega aðild Úkraínu. Aðild hvorugs ríkisins er þó líkleg í fyrirsjáanlegri framtíð að mati Gabriels. Þess vegna ætti að huga að annars konar nánu samstarfi.

Enn standa yfir útgönguviðræður við Breta. Fyrsta kafla viðræðna, um aðskilnaðinn sjálfan, er nærri lokið og næsti kafli, um framtíðarsamband, hefst á næstu vikum. „Ef við komumst að góðu samkomulagi við Bretland sem skýrir línurnar um framtíðarsamskipti gæti verið hægt að heimfæra það samband á önnur ríki,“ sagði utanríkisráðherrann.

Gabriel sagðist til að mynda sjá fyrir sér nánara tollasamstarf við Tyrki. Þó að því gefnu að Recep Tayyip Erdogan forseti léti af meintum mannréttindabrotum.

Ekkert hefur gerst í aðildarviðræðum Tyrkja frá árinu 2005. Hins vegar hefur ESB unnið með Úkraínumönnum, meðal annars á sviði fríverslunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×