Innlent

Einn látinn og margir alvarlega slasaðir eftir slysið við Klaustur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Slysið varð þegar rútunni var ekið aftan á fólksbíl sem verið var að beygja útaf veginum við útsýnisstað.
Slysið varð þegar rútunni var ekið aftan á fólksbíl sem verið var að beygja útaf veginum við útsýnisstað.

Einn er látinn og á annan tug er alvarlega slasaður eftir að rúta með um fimmtíu erlenda ferðamenn frá Kína fór útaf Suðurlandsvegi og valt um sex kílómetra vestur af Kirkjubæjarklaustri klukkan 11:03 í morgun. Landspítalinn hefur verið settur á aukið viðbragð og sjúkrastofnanir víða um land eru í viðbragðsstöðu.

Tveir farþegar festust undir rútunni og er unnið að því að losa þá að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Fjöldi ferðamannanna hefur verið á reiki en nýjustu upplýsingar frá lögreglu segja að ferðamennirnir hafi verið um fimmtíu.

Aðgerðarstjórn á Suðurlandi hefur virkjuð í Björgunarmiðstöðinni við Árveg á Selfossi og að auki hefur samhæfingastöðin í Skógarhlíð verið virkjuð. Þá hefur fjöldahjálparstöð verið opnuð á Kirkjubæjarklaustri. Byrjað er að flytja þá sem eru minna slasaðir í fjöldahjálparstöðina þar sem Guðveig Hrólfsdóttir og fleiri heimamenn standa vaktina.

Frá Vettvangsstjórn á Selfossi rétt fyrir klukkan eitt í dag. Vísir/Magnús Hlynur

Allt tiltækt lið viðbragðsaðila á svæðinu hefur verið kallað á vettvang. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, TF-SYN og TF-LIF, eru nú á leið þangað. Búist er við að þær lendi þá og þegar. Þá eru sjúkrastofnanir í viðbragðsstöðu.

Þjóðvegi nr. 1 hefur verið lokað við Kirkjubæjarklaustur og verður svo á meðan unnið er að björgun á vettvangi. Búast má við straumi sjúkrabíla og annarra viðbragðsaðila og eru vegfarendur beðnir um að sýna tillitsemi og þolinmæði á meðan. Unnið er að því að koma á hjáleið um Meðallandsveg F204. Athygli er vakin á því að vegurinn er frumstæður einbreiður malarvegur og eru ökumenn beðnir um að fara með sérstakri gát.

Fréttin var uppfærð klukkan 15:14.
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.