Bílar

Á ellefta þúsund Evrópubúa hafa pantað Leaf í forsölu

Finnur Thorlacius skrifar
Meira en 1.100 Nissan Leaf bílar eru í umferðinni hér á landi og þeim mun brátt fjölga myndarlega.
Meira en 1.100 Nissan Leaf bílar eru í umferðinni hér á landi og þeim mun brátt fjölga myndarlega.

Frá því að Nissan fór að bjóða nýju kynslóð rafmagnsbílsins Leaf í forsölu í Evrópu fyrir tveimur mánuðum hafa rúmlega tíu þúsund manns lagt inn pöntun, þar af rúmlega sjötíu hér á landi síðan BL hóf forsölu 4. desember. Afhending fyrstu bílanna hefst í febrúar á meginlandinu og í mars hjá BL.
Loftur Ágústsson, markaðsstjóri BL, segist ekki muna eftir jafn miklum áhuga á bíl í forsölu á Íslandi frá því að hann byrjaði að starfa í bílagreininni fyrir margt löngu. „Nei, ég man satt að segja ekki eftir svona miklum áhuga á bíl sem fólk hefur ekki séð nema á myndum og þar af leiðandi ekki prófað. En auðvitað er Leaf orðinn vel þekktur hér enda meira en 1100 slíkir í umferðinni og sífellt fleiri sem þekkja hann af eigin reynslu.

Nýi bíllinn sem við byrjum líklega að afhenda í mars, kemur með ýmsum tækninýjungum auk langdrægari rafhlöðu sem gerir Leaf enn ákjósanlegri kost fyrir stærri hóp viðskiptavina, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins þar sem hleðslustöðvum fer hratt fjölgandi. Mér sýnist sem sífellt fleiri séu að taka þá ákvörðun að stíga skrefið til fulls með því að velja 100% rafbíl enda þótt mjög margir velji líka aðrar umverfismildar lausnir eins og t.d. tengiltvinntæknina,“ segir Loftur. BL hefur tryggt sér bíla úr fyrstu framleiðslulotunni sem afhentir verða í mars og eru þeir nú þegar allir seldir.

Stórstígar framfarir

Árið 2010, þegar fyrsta kynslóð Leaf kom á markað var um að ræða fyrsta 100% rafbílinn fyrir almennan markaði. Á sama tíma héldu aðrir helstu bílaframleiðenda heims sig við þróun tvinntækninnar þar sem sprengihreyfillinn gegndi enn meginhlutverki orkuþarfar bílanna á móti rafmótornum sem var að ryðja sér til rúms í bílaframleiðslu. Á þeim átta árum sem liðin eru frá því að að Leaf kom á markað hafa neytendur fylgst með stórstígum framförum í tækni rafbíla.

Fleiri og fleiri sjá þá nú sem ákjósanlegan kost fyrir sig enda hefur sala rafbíla fimmfaldast frá árinu 2012. Nissan hefur aflað sér mikillar þekkingar og reynslu á þeim tæpum átta árum sem liðin eru frá því að fyrirtækið reið á vaðið í rafbílaframleiðslunni og má segja að henni hafi verið pakkað saman í nýjustu kynslóð Leaf sem kemur á Evrópumarkað upp úr áramótum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.