Innlent

Kostnaður fylgir frestun Medeu

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Kristín Eysteinsdóttir Borgarleikhússtjóri.
Kristín Eysteinsdóttir Borgarleikhússtjóri. vísir/stefán
Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, segir að ekki sé búið að taka saman kostnað leikhússins við að fresta sýningum á Medeu fyrr í þessum mánuði, hann sé þó einhver.

Til stóð að frumsýna verkið 29. desember en frumsýningin hefur nú verið færð til 13. janúar næstkomandi í kjölfar þeirrar ákvörðunar leikhússins að láta einn aðalleikara sýningarinnar, Atla Rafn Sigurðarson, taka pokann sinn á dögunum.

„Við erum ekki endanlega búin að taka saman kostnaðinn við þetta en tekjurnar koma auðvitað síðar en áætlað var. Frumsýningin verður 13. janúar og það kemur annar leikari inn í sýninguna. En það verður alltaf einhver kostnaður sem fylgir svona,“ segir Kristín í samtali við Fréttablaðið.

Hjörtur Jóhann Jónsson mun taka við hlutverkinu af Atla Rafni og kveðst Kristín fullviss um að hann muni rúlla þessu upp, þrátt fyrir stuttan fyrirvara.

Aðspurð segir Kristín að ekki hafi verið mikil afföll hjá fólki sem hafði tryggt sér miða á sýningarnar í desember. Mikið af því hafi verið kortagestir sem hafi tekið vel í nýjar dagsetningar en fólki standi til boða að færa sig ef ný dagsetning hentar ekki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×