Innlent

Æfingar skiptu sköpum á slysstað

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Alls þrjár þyrlur voru notaðar til að ferja slasaða af vettvangi í dag.
Alls þrjár þyrlur voru notaðar til að ferja slasaða af vettvangi í dag. Landsbjörg
Allt tiltækt lið sjúkraliða, lögreglu, slökkviliðs og björgunarsveita á Suðurlandi var kallað út þegar tilkynning barst um rútuslys á Suðurlandsvegi á tólfta tímanum í morgun. Rúmlega 60 félagar úr Slysavarnafélaginu Landsbjörg komu á einn eða annan hátt að aðgerðum vegna slyssins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Björgunarsveitarmennirnir sinntu m.a. verkefnum við aðgerðarstjórnun, samhæfingu, aðhlynningu á vettvangi, flutning á slösuðum og lokunum á Þjóðvegi 1.

Frá aðgerðum viðbragðsaðila í dag.Landsbjörg
Suðurlandsvegur við slysstað var opnaður aftur eftir lokanir dagsins rétt upp úr níu í kvöld en um það leyti luku síðustu hópar björgunarsveitanna jafnframt verkefnum sínum. Þá voru björgunarsveitarhópar enn að sinna verkefnum við flutning slasaðra um klukkan sjö í kvöld, að því er segir í tilkynningu.

„Allir viðbragðsaðilar hafa unnið frábærlega vel saman og augljóst að æfingar sem haldnar hafi verið hafa skipt sköpum, því hinir fjölmörgu viðbragðsaðilar sem komu að aðgerðinni í dag náðu að vinna sem einn,“ segir Ármann Ingi Sigurðsson úr svæðisstjórn Landsbjargar. Hann var í björgunarmiðstöðinni á Selfossi í dag þegar vinna við slysið stóð sem hæst.

Kínversk kona á þrítugsaldri lést í rútuslysinu á Suðurlandsvegi í morgun. Hún var úrskurðuð látin á vettvangi. Tólf voru fluttir með þyrlum af vettvangi alvarlega slasaðir.

Slysið varð á Þjóðvegi 1 um Eldhraun, skammt frá Kirkjubæjarklaustri, er rúta lenti aftan á fólksbíl og valt á hliðina. Um borð í rútunni voru 44 kínverskir ferðamenn auk leiðsögumanns og bílstjóra.

Tekið var á móti óslösuðum og minna slösuðum í fjöldahjálparstöðinni á Kirkjubæjarklaustri. Lögreglan á Suðurlandi virkjaði hópslysaáætlun sína og var aðgerðum stjórnað úr björgunarmiðstöðinni á Selfossi, sem og samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×