Innlent

Snjókoma og él næstu daga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það mun eflaust snjóa á Esjuna á næstunni.
Það mun eflaust snjóa á Esjuna á næstunni. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir hægri austlægri átt í dag en víða 5 til 10 m/s við sjávarsíðuna. Það verði bjartviðri en dálítil él nyrst á landinu og á Austurlandi og mun bæta í éljagang þar í nótt. Frost 2 til 14 stig, kaldast inn til landsins en dregur úr frosti sunnantil annað kvöld.

Að sama skapi mun hvessa eilítið á morgun, víða verður 10 til 15 m/s snemma um nóttina og fer að snjóa. Þannig verður snjókoma með köflum á sunnan- og vestanverðu landinu fram á laugardag en léttskýjað á Austurlandi.

Á gamlárs- og nýársdag er útlit fyrir fremur hæga norðlæga átt, en þó kalda við Suðausturströndina, él norðan- og austantil á landinu en léttskýjað syðra.

Á vef Vegagerðarinnar segir jafnframt að búast megi við hálku nær alls staðar á landinu í dag. Greiðfært sé þó á flestum vegum á láglendi Suðvesturlands. Það sé flughálka á Fellsströnd og ófært í Árneshreppi en þar er verið að moka þessa stundina. Vegirnir um Breiðdalsheiði og Öxi eru að sama skapi ófærir. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:
Austlæg átt 3-8 m/s og þurrt og bjart, en austan 8-13 og él eða snjókoma með suðurströndinni og allra nyrst á landinu. Frost 3 til 14 stig, kaldast inn til landsins.

Á laugardag:
Austlæg átt 5-10 en 10-15 syðst. Líkur á éljum eða snjókomu í flestum landshlutum, en yfirleitt þurrt inn til landsins. Frost 1 til 10 stig.

Á sunnudag (gamlársdagur):
Norðan og norðaustan 8-13 m/s og él norðan- og austanlands, en hægari vindur og bjartviðri suðvestantil á landinu. Áfram frost um allt land.

Á mánudag (nýársdagur):
Norðlæg eða breytileg átt og dálítil él nyrst á landinu. Áfram kalt í veðri.

Á þriðjudag:
Ákveðin austanátt með snjókomu á austurhelmingi landsins en bjartviðri vestantil. Dregur víða úr frosti.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir austlægri átt með köldu og björtu veðri en vaxandi suðaustanátt, hlýnar og þykknar upp um kvöldið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.