Körfubolti

Spá því að Tryggvi verði valinn númer 56 í nýliðavalinu á næsta ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tryggvi í leik með íslenska landsliðinu á EM í Finnlandi.
Tryggvi í leik með íslenska landsliðinu á EM í Finnlandi. vísir/ernir

Íþróttavefsíðan Bleacher Report spáir því að Tryggvi Snær Hlinason verði valinn númer 56 í nýliðavali NBA-deildarinnar í körfubolta á næsta ári.

Tryggvi er á radarnum hjá liðum í NBA eftir frábæra frammistöðu með íslenska U-20 árs landsliðinu á EM í sumar. Hann var m.a. með hæsta framlagið af öllum leikmönnum eftir riðlakeppnina og var svo valinn í úrvalslið mótsins.

Sérfræðingar um nývalið í NBA á borð við Mike Schmitz og Jonathan Givony hafa skrifað um Tryggva og telja líklegt að hann verði valinn í nýliðavalinu 2018.

Samkvæmt tilbúningsnýliðavali Bleacher Report verður Tryggvi valinn með valrétti númer 56 í nýliðavalinu á næsta ári. Eins og staðan er núna tilheyrir sá valréttur Charlotte Hornets. Með liðinu, sem er í eigu Michels Jordan, leikur einn fremsti miðherji síðari ára, Dwight Howard.

Tryggvi gekk í raðir Valencia á Spáni í sumar og hefur fengið mínútur með aðalliði félagsins, m.a. í EuroLeague.

Bleacher Report spáir því að Deandre Ayton, leikmaður Arizona-háskólans, verði valinn fyrstur í nýliðavalinu 2018. Því er spáð að slóvenska undrabarnið Luka Doncic verði tekinn með öðrum valrétti.

Lista Bleacher Report í heild sinni má sjá með því að smella hér.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.