Erlent

Leita að flaki MH370 með aðstoð fjarstýrðra kafbáta

Þórdís Valsdóttir skrifar
Vélin hvarf árið 2014 á leið frá Kuala Lumpur til Peking. Myndin er af minnisvarða í Kuala Lumpur.
Vélin hvarf árið 2014 á leið frá Kuala Lumpur til Peking. Myndin er af minnisvarða í Kuala Lumpur. Vísir/getty
Leitað verður að nýju að farþegaþotu Malasya Airlines sem hvarf fyrir tæpum fjórum árum síðan. Þetta kemur fram í frétt NRK. Malasíska flugvélin MH370 hvarf í mars árið 2014 á leið frá Kuala Lumpur til Peking með 239 manns um borð.

Leit mun nú fara fram með aðstoð norska skipsins Seabed Constructor sem er í eigu Swire Seabed frá Bergen. Skipið er nú komið til borgarinnar Durban í Suður Afríku þar sem skipt verður um áhöfn og heldur svo af stað í átt að suður Indlandshafi til að hefja leit að flaki vélarinnar.

Skipið mun nota sex fjarstýrða kafbáta sem gerðir voru af fyrirtækinu Kongsberg Maritime. Kafbátarnir geta farið niður á allt að 6 þúsund metra dýpi. Vélmennin munu vera stödd þrjú hvorum megin við skipið og þannig verður hægt að leita á stóru svæði á skömmum tíma.

Bandaríska fyrirtækið Ocean Infinity stjórnar leitinni. Fyrirtækið fær ekki greitt fyrir vinnu sína, en mun fá fundarlaun frá malasískum yfirvöldum ef flak vélarinnar finnst innan 90 daga. Fundarlaunin hljóða upp á 70 milljónir bandaríkjadala. 

Ástralskir rannsakendur skiluðu af sér lokaskýrslu til yfirvalda í Ástralíu í október síðastliðnum og sögðust miður sín yfir því að flugvélin hafi ekki fundist þrátt fyrir umfangsmikla leit. Leitað hafði verið á rúmlega 120 þúsund ferkílómetra svæði.

Brak sem talið er vera úr MH370 hefur rekið á land á eyjum í Indlandshafi og á austurströnd Afríku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×