Skoðun
Guðmundur Ingi Þóroddson.

Kirkjufellsfossinn fagri

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Kirkjufellsfoss er líklega að verða einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna sem leið eiga um Snæfellsnesið. Þangað koma þúsundir ferðamanna alla daga til að berja fossinn augum og auðvitað til að taka mynd af Kirkjufellinu frá þessu tiltekna sjónarhorni.

Bílastæði eru örfá og gríðarlegt umferðaröngþveiti myndast við þjóðveginn þar sem ægir saman stærðarinnar langferðabílum og smæstu bílaleigubílum. Slysahættan er áþreifanleg og mannslíf í stanslausri hættu.

Ég hef undrast það hvers vegna landeigendur hafi ekki gert bragarbót á, öllum til heilla, og komist að því að þeir vilja hreinlega ekki að ferðamenn komi inn á svæðið. Þeir hafa reynt að loka svæðið af, þrengt inngang að bílastæðum, sett lása á öll hlið og jafnvel öskrað á ferðamenn sem þarna koma.

Lokanirnar á svæðinu eru reyndar orðnar svo umfangsmiklar að Grundfirðingar geta ekki lengur gengið um svæðið eins og áður.

Þarna væri með litlum tilkostnaði hægt að koma upp þjónustumiðstöð með góðu bílastæði og varningi til sölu. Miðað við fjölda ferðamanna daglega mætti þéna vel á því.

Merkilegast við afstöðu landeigandans, eða þess sem á 70% af landinu, er að hann býr ekki sjálfur í Grundarfirði heldur í útlöndum. Og hann er þekktur fyrir það að ferðast og njóta náttúruperla í öðrum löndum á sama tíma og hann gerir hvað hann getur til að halda ferðamönnum frá Kirkjufellsfossi.

Þannig að í stað þess að koma upp aðstöðu fyrir ferðafólkið, og eflaust hagnast, þá mun þessi tiltekni landeigandi hafa slysin sem verða á svæðinu á samvisku sinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.