Sport

Ólafía Þórunn er íþróttamaður ársins

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Íþrottamaður ársins 2017, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Íþrottamaður ársins 2017, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir vísir/ernir

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er íþróttamaður ársins 2017.

Kjörið var kunngjört á árlegu hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna sem fram fór í Hörpu í kvöld, en það eru Samtök íþróttafréttamanna sem standa að kjörinu. Þetta var í 62. sinn sem samtökin heiðra íþróttamann ársins.

Ólafía Þórunn er að hljóta viðurkenninguna í fyrsta sinn, en þetta er einnig í fyrsta sinn sem að kylfingur fær þennan sæmdartitil. Það hefur ekki gerst síðan 1994 að ný íþróttagrein eignist sinn fyrsta íþrótamann ársins.

Ólafía er 25 ára gömul og kemur frá Reykjavík. Hún var í ár að keppa á sínu fyrsta tímabili á LPGA mótaröðinni og náði þar frábærum árangri. Hún endaði í 74. sæti á stigalista mótaraðarinnar, sem ekki aðeins veitir henni þáttökurétt á mótaröðinni á næsta tímabili, heldur veitir henni einnig forgang á öll LPGA mót næsta árs.

Hún tók þátt í þremur af fimm risamótum ársins og varð fyrsti íslenski kylfingurinn sem kemst inn á risamót í golfi. Hún var einnig valin í úrvalslið LET-Evrópumótaraðarinnar sem keppti á Drottningarmótinu í Japan.

Alls tók Ólafía Þórunn þátt í 26 mótum á LPGA mótaröðinni í ár. Hennar besti árangur var 4. sæti sem hún náði á Indy Women in Tech mótinu í júlí. Ólafía náði tíunda besta árangri nýliða í sögu mótaraðarinnar.

Ólafía fór upp í 179. sæti heimslistans í golfi, sem er besti árangur íslensks kylfings, en hún stökk upp um 420 sæti á árinu. Árangurinn styrkir stöðu Ólafíu á að komast á Ólympíuleikana í Tókýó árið 2020.

Þeir sem tilnefndir voru til íþróttamanns ársins voru: Aníta Hinriksdóttir, Aron Einar Gunnarsson, Guðjón Valur Sigurðsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Helgi Sveinsson, Hrafnhildur Lúthersdóttir, Jóhann Berg Guðmundsson, Sara Björk Gunnarsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.