Erlent

Hvöttu Clinton til að hætta í stjórnmálum og byrja að prjóna: „Skilgreiningin á kynjamisrétti“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hillary Clinton, fyrrverandi forsetaframbjóðandi.
Hillary Clinton, fyrrverandi forsetaframbjóðandi. Vísir/afp
Tímaritið Vanity Fair hefur verið gagnrýnt harðlega fyrir myndband sem birt var á samfélagsmiðlum tímartisins. Í myndbandinu var Hillary Clinton, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, hvött til að segja skilið við stjórnmál og taka upp nýtt áhugamál, til dæmis prjónaskap.

Í myndbandinu er því m.a. beint til Clinton að hætta að kenna öðrum um tap sitt í bandarísku forsetakosningunum í fyrra. Þá var jafnframt mælst til þess að hún hætti þátttöku í stjórnmálum og byrji í staðinn að prjóna, sinna sjálfboðastarfi eða æfa uppistand á nýju ári.

Fjölmargir tengdir Clinton, þar á meðal aðstoðarmenn hennar, auk þekktra einstaklinga svöruðu Vanity Fair fullum hálsi eftir að myndbandið var birt.

Adam Parkhomenko, fyrrverandi ráðgjafi Clinton, hvatti fólk til að segja upp áskrift að tímaritinu og birti mynd af eintaki af Vanity Fair í ljósum logum á Twitter-reikningi sínum.

Bandaríska leikkonan Patricia Arquette var hvöss í málflutningi sínum. „Hættið að segja konum hvað í fjandanum þær mega og mega ekki gera,“ ritaði Arquette í færslu á Twitter.

Á Twitter-reikningi vefsíðunnar Dictionary.com voru skilaboð myndbandsins, þ.e. að segja menntuðum lögfræðingi á borð við Clinton að byrja að prjóna, sögð „skilgreininguna á kynjamisrétti“.

Þá hafa aðrir Twitter-notendur stórlega efast um að sama yrði upp á teningnum ef um karlmann væri að ræða.

Donald Trump, Bandaríkjaforseti og harður andstæðingur Clinton, var einn þeirra sem blandaði sér í málið. Hann birti nokkuð sérkennilegt tíst á Twitter-reikningi sínum þar sem hann gagnrýndi Vanity Fair fyrir að leggjast svo lágt að biðjast afsökunar á myndbandinu um hina „svikulu Hillary“, eða „Crooked Hillary“ eins og forsetinn kallar fyrrverandi mótframbjóðanda sinn iðulega.

Þá blandaði Trump Önnu Wintour, ritstjóra Vogue, inn í málið. Ekki er ljóst hvað forsetanum gekk til með því.

Talskona Vanity Fair, Beth Kseniak, sagði tímaritið hafa ætlað að slá á létta strengi með útgáfu myndbandsins. Hún sagði enn fremur að aðstandendur myndbandsins harmi að skilaboðin hafi misst marks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×