Erlent

Mannskæðasti bruni í New York í aldarfjórðung

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Byggingin er rúmlega 100 ára gömul.
Byggingin er rúmlega 100 ára gömul. Vísir/EPA
Að minnsta kosti tólf fórust og fjórir eru alvarlega slasaðir eftir mikinn bruna í íbúðablokk í Bronx-hverfinu á Manhattaneyju í New York í nótt.

Borgarstjórinn, Bil de Blasio, segir að um mannskæðasta bruna í borginni í tuttugu og fimm ár sé að ræða. Á meðal hinna látnu er eins árs gamalt barn.

„Í kvöld, hér í Bronx, hafa fjölskyldur verið slitnar í sundur. Þetta er versti eldsvoði sem við höfum upplifað í borginni í aldarfjórðung. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum núna er ljóst að þetta er einn mannskæðasti bruni í áraraðir,“ sagði borgarstjórinn í nótt.

Ástæða eldsvoðans er enn ókunn en húsið stóð í grennd við Fordham-háskólann og dýragarðinn í Bronx. Fleiri en 160 slökkviliðsmenn börðust við logana en eldurinn kom upp um miðnættið að íslenskum tíma.

Nístingskuldi í New York

Fjöldahjálparstöð hefur verið komið á fót í skólum í nágrenninu þar sem íbúar hússins hafa komið sér fyrir. EKki var talið koma til greina að fólkið hýrðist utandyra því nístingskuldi er í New York þessa stundina.

Slökkviliðsstjórinn sem stýrði aðgerðunum í nótt segir að án nokkurs vafa sé um sögulega stóran eldsvoða að ræða. Fólkið sem lést hafi verið á öllum aldri og samstarfsmenn hans, sem þó séu öllu vanir, eigi vart orð yfir hildarleikinn.

Á þriðja tug íbúða voru í byggingunni sem var orðin rúmlega 100 ára gömul. Fram kemur í frétt AP að eldsvoðinn sé sá mannskæðasti í New York - að frátöldum eldinum sem kom upp eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september árið 2011 - frá árinu 1990 þegar 87 manns létust í bruna á skemmtistað í Bronx.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×