Erlent

Trump bendir á að það sé kalt og kallar eftir hnattrænni hlýnun

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, kallaði í nótt eftir hnattrænni hlýnun eftir að hann sá veðurspá um mikið kuldaskeið í Bandaríkjunum. Hann hefur ítrekað haldið því fram að loftslagsbreytingar af völdum manna séu ekki raunverulegt vandamál en ekki síðan hann varð forseti.

Í tísti sínu sagði Trump, sem er í fríi í Flórída, með kaldhæðnislegum hætti, að áramótin gætu verið þau köldustu frá því mælingar hófust í hlutum Bandaríkjanna. Því væri mikil þörf á hnattrænni hlýnun, sem Bandaríkin en ekki önnur ríki, hafi ætlað að greiða háar fjárhæðir til að sporna gegn.

Væntanlega er hann þar að vísa til Parísarsáttmálans en hann dró Bandaríkin úr honum á árinu. Þar að auki hefur Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna snúið sér frá aðgerðum vegna hnattrænnar hlýnunar.

Í gegnum tíðina hefur Trump, forseti Bandaríkjanna, ítrekað kallað loftslagsbreytingar af mannavöldum „þvætting“, og „svindl“ sem Kínverjar hafi búið til með þeim tilgangi að draga úr samkeppnishæfni Bandaríkjanna.

Þá hefur hann oft tíst um þörfina á hnattrænni hlýnun þegar kalt er í veðri í Bandaríkjunum.

Kuldakast þýðir þó ekki að hnattræn hlýnun sé ekki til. Kuldakast sýnir að veður sé til. Eins og nafnið gefur til kynna snýr hnattræn hlýnun að hækkandi hitastigi á jörðinni í heild sinni vegna uppsafnaðra gastegunda í gufuhvolfinu sem fanga hita.

Á vef Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna segir að munurinn á veðri og veðurfari sé tími. Þegar kemur að veðurfari og hnattrænni hlýnun er verið að ræða breytingar yfir langt tímabil.

Sömuleiðis, og eins og veðurstofa Washington Post benti á í fyrradag, þá er hlýrra en gengur og gerist í mörgum hlutum heimsins, þó það sé kalt í hluta Bandaríkjanna.

Vísindamenn hafa lengi sagt það rangt að taka einstök veðurfyrirbæri til marks um að hnattræn hlýnun sé ekki, eða sé, að eiga sér stað. Síðasta ár, 2016, var það heitasta síðan mælingar hófust og það þriðja slíka ár í röð. Samkvæmt frétt CNN er útlit fyrir að 2017 verði meðal hlýjustu ára frá því að mælingar hófust.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.