Gagnrýni

Öldurót kynslóðanna

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Elva Ósk Ólafsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson í hlutverkum sínum í Hafinu í Þjóðleikhúsinu.
Elva Ósk Ólafsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson í hlutverkum sínum í Hafinu í Þjóðleikhúsinu. Mynd/Hörður Sveinsson
Hafið eftir Ólaf Hauk Símonarson var frumflutt á stóra sviði Þjóðleikhússins haustið 1992, eða fyrir 25 árum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og ávallt er það krefjandi verkefni að sviðsetja íslenska nýklassík. Nú fær leikritið hátíðarsess sem jólasýning Þjóðleikhússins þar sem áhorfendur fá að fylgjast með örlögum útgerðarmannsins Þórðar og fjölskyldu hans á umbrotatímum í ónefndu sjávarplássi úti á landi.

Í stuttu máli fer verkið fram á tæpum þremur dögum og nær hápunkti í gamlárskvöldsfagnaði fjölskyldunnar. En eins og með flest góð verk þá krauma dýpri átök undir fjölskylduátökunum; hér takast á fortíð og framtíð, sjálfhverfa og samfélagsskylda, landsbyggðarhollusta og heimshornadraumar. Gerðar voru breytingar á handritinu fyrir sýninguna þar sem persónur eru skeyttar saman þannig að þeim fækkar töluvert, líkt og í bíómyndinni byggðri á leikverkinu sem kom út árið 2002. Þessar breytingar eru yfirleitt til hins betra þar sem framvindan þjappast saman og karakterar fá pláss til að þróast.

Í brúnni stendur Sigurður Sigurjónsson sem leikstýrir verkinu af styrk en jafnframt látleysi. Hér fá leikararnir að njóta sín og áhersla er lögð á að koma sögu þessarar fjölskyldu skýrt til skila. Flæðið bæði í atriðum og á milli atriða virðist áreynslulaust en slík vinnubrögð krefjast fágunar og næmni. Nánast allt gengur upp en sýningin missir kraft á ögurstundu sem gerir það að verkum að botninn dettur úr framvindunni á lokametrunum sem er synd.

Þröstur Leó Gunnarsson leikur útgerðarmanninn Þórð sem er laskaður maður, bæði að innan og utan. Hæfileikar Þrastar Leós eru ótvíræðir og rafmagnaðir á hans bestu stundum sem eru þó reyndar helst til fáar, því þó svo verkið hverfist um Þórð að miklu leyti þá getur hlutverkið tæpast talist aðalhlutverk. Örvænting Þórðar vekur samúð og skilningsleysi hans yfir nútímanum verður mannlegt fyrir vikið líkt og grimmd hans í garð barna sinna þó hún sé hræðileg, slíkt er ekki auðvelt að galdra fram.

En nú er kominn tími til að Elva Ósk Ólafsdóttir fái fleiri hlutverk sem hæfa hennar miklu hæfileikum. Hlutverk Kristínar, sambýliskonu Þórðar, er ekki stórt en veigamikið og þetta skilur Elva Ósk. Hún er þögli tengiliður fjölskyldunnar en hefur sína djöfla að draga sem birtast ljóslifandi í andliti hennar og líkamsstöðu þó að hún segi ekki neitt. Á heimilinu býr einnig Kata, móðir Þórðar, leikin af Guðrúnu S. Gísladóttur sem laumast um líkt og vofa fortíðarinnar umvafin sígarettureyk. Kata liggur ekki á skoðunum sínum og á Guðrún margar af bestu línum kvöldsins enda kann hún að bíða eftir rétta augnablikinu til að skjóta línum að þó að stundum mjólki hún þau aðeins um of.

Yngri systkinin tvö, Ragnheiður og Ágúst leikin af Sólveigu Arnarsdóttur og Oddi Júlíussyni, eru komin heim að ósk pabba síns en sá elsti, Haraldur, leikinn af Baldri Trausta Hreinssyni, sat eftir heima til að stjórna fjölskyldufyrirtækinu. Samleikur þeirra er lipur og trúverðugur. Hér er hópur af fólki sem á lítið sameiginlegt nema blóðið, óvild í garð pabba síns og heimtufrekju.

Makar Haraldar og Ragnheiðar, þau Áslaug og Guðmundur, eru leikin af Birgittu Birgisdóttur og Snorra Engilbertssyni, koma með harmblandinn léttleika inn í söguna. Þetta gera þau bæði vel og treysta ekki einungis á kómíkina. Tökusoninn Berg leikur Baltasar Breki Samper ágætlega, þá sérstaklega í seinni hluta sýningar. Aftur á móti vantar ennþá upp á textavinnu Snæfríðar Ingvarsdóttur sem nær aldrei takti við sýninguna í hlutverki Maríu.

Leikmyndahönnun Finns Arnar Arnarssonar er látlaus líkt og leikstjórnin en afskaplega vel heppnuð. Ættaróðalið stendur á viðarpöllum með bryggjupollum á hverju horni, eins konar vin í ólgusjó. Þórunn María Jónsdóttir sér um búningana af mikilli kostgæfni, eins og hennar er von og vísa, þó að ball­kjólar Maríu og Áslaugar hafi verið of mikið af því góða. Andi áttunda áratugarins svífur yfir vötnum en næmt auga hönnunarteymisins gerir það að verkum að sýningin er nærri tímalaus, þó að rafsígaretturnar stingi í stúf.

Þó að gallar séu á sýningunni þá skilar sterkt og samhent listrænt átak henni í höfn. Hér er ekki verið að taka neinar listrænar áhættur heldur verið að koma íslensku raunsæisverki til skila á skilmerkilegan hátt. Dirfsku þarf til að setja upp íslenska nýklassík nú á dögum, hvað þá að endurvinna upprunalega handritið. Nú bærist í brjósti von um að Þjóðleikhúsið setji enn meiri metnað í íslenska leikritun, því sannast hefur með bæði Húsinu eftir Guðmund Steinsson og nú með Hafinu að okkar bestu leikrit standast tímans tönn og ekki veitir af að skrifa fleiri slík verk fyrir framtíðina.

Niðurstaða: Íslensk nýklassík framreidd á hefðbundinn en heillandi máta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×