Erlent

Kanna möguleika á þriggja flokka stjórn í Noregi

Atli Ísleifsson skrifar
Trine Skei Grande, formaður Venstre, Erna Solberg, formaður Høyre, Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins og Knut Arild Hareid, formaður Kristilega þjóðarflokksins í aðdraganda kosninganna í september.
Trine Skei Grande, formaður Venstre, Erna Solberg, formaður Høyre, Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins og Knut Arild Hareid, formaður Kristilega þjóðarflokksins í aðdraganda kosninganna í september. Vísir/afp
Fjálslyndi flokkurinn Venstre hefur samþykkt að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Høyre og Framfaraflokknum í Noregi. Trine Skei Grande, formaður Venstre, segir flokkinn með þessu vilja gera hægristjórnina frjálslyndari.

Trine Skei Grande sagði á fréttamannafundi í gær að flokkur hennar hafi gert skýrar kröfur þegar kæmi að samstarfi, eigi það að verða að veruleika. „Við ætlum að vinna að grænni ríkisstjórn, örlátari ríkisstjórn sem lítur á manneskjur og lyftir þeim sem á því þurfa að halda,“ segir Grande.

Erna Solberg, forsætisráðherra og formaður Høyre, fagnar því að Venstre vilji hefja viðræður en segir enn ekki ljóst hvort að fulltrúar Vestre fái sæti við ríkisstjórnarborðið fyrr en viðræðum er lokið. „Þreifingar hafa staðið í langan tíma þar sem við höfum rætt um hvað við eigum sameiginlegt, hvaða áskoranir samfélag okkar stendur frammi fyrir og eftir þær einbeittu viðræður sem við höfum haft er ég ánægð að Venstre hafi valið að fara þessa leið.“

Høyre og Framfaraflokkurinn hafa myndað minnihlutastjórn síðustu fjögur árin með stuðningi Venstre og Kristilega þjóðarflokksins. Allt frá kosningunum 11. september síðastliðinn, þar sem Høyre varð stærsti borgaralegi flokkurinn, hafa þreifingar staðið, en leiðtogi Kristilega þjóðarflokksins sagði að loknum kosningum ekki vilja starfa í óbreyttri stjórn með Framfaraflokknum.

Jafnvel þó að Venstre myndi setjast í stjórn með Høyre og Framfaraflokknum væru flokkarnir þrír ekki með meirihluta á þingi og yrðu áfram háðir stuðningi Kristilega þjóðarflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×