Enski boltinn

Klopp vildi sjá Gylfa fá rautt spjald

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jürgen Klopp var sáttur með frammistöðu Liverpool en vildi fá þrjú stig.
Jürgen Klopp var sáttur með frammistöðu Liverpool en vildi fá þrjú stig. vísir/getty
Jurgen Klopp var að vonum ósáttur með jafntefli sinna manna í Liverpool við Everton í slagnum um Bítlaborgina í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Everton og spilaði allan leikinn. Hann fékk gult spjald í fyrri hálfleik fyrir tæklingu á Jordan Hendersson. Klopp sagðist hafa viljað sjá annan lit á spjaldinu.

„Það var bara eitt lið að spila fótbolta. Ég trúði ekki eigin augum yfir öllum tæklingunum. Við vorum að að spila hreint og brutum ekki af okkur. Það er alltaf ein ljót tækling, Sigurðsson átti hana. Klárt rautt spjald,“ sagði Klopp í viðtali við Sky Sports eftir leikinn.

Sjá einnig: Liverpool missti unnin leik niður í jafntefli

Það lá mjög illa á Klopp og hann reifst við fréttamanninn sem var að reyna að taka viðtal við hann. Þegar fréttamaðurinn sagðist sér hafa fundist það réttur dómur þegar Everton fékk vítaspyrnu sagði Klopp: „Ég tala bara við fólk sem skilur fótbolta.“

Hann baðst svo strax afsökunar og sagðist augljóslega ekki í skapi til þess að svara spurningum blaðamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×