Innlent

Um fimmtíu skjálftar í Skjaldbreið í dag

Birgir Olgeirsson skrifar
Enginn gosórói hefur mælst í fjallinu en upptökin eru í austanverðu fjallinu.
Enginn gosórói hefur mælst í fjallinu en upptökin eru í austanverðu fjallinu. Tómas Guðbjartsson
Skjálftahrinan í fjallinu Skjaldbreið virðist vera í rénun, allavega í bili samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Sextíu og sex skjálftar mældust á svæðinu í gær og um það bil fimmtíu í dag. Í gærkvöldi varð skjálfti sem var 3,5 að stærð. Rétt fyrir klukkan átta í gærkvöldi varð skjálfti af stærð 3,2 og en um einum og hálfum tíma síðar varð skjálfti af stærð 3,7. Skjálfti af stærð 3,8 varð í fjallinu rétt fyrir klukkan níu í morgun en fyrir þessa hrinu höfðu ekki svo öflugir skjálftar mælst í fjallinu frá árinu 1992.

Skjaldbreiður myndaðist í gosi fyrir níu þúsund árum. Gígurinn er 300 metrar í þvermál og 50 metra djúpur.Tómas Guðbjartsson
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hefur heldur dregið úr skjálftavirkninni seinni partinn í dag. Upptök skjálftanna eru í austanverðu fjallinu en Skjaldbreiður myndaðist í eldgosi fyrir 9.000 árum. Um er að ræða þúsund metra háa dyngju en á hvirfli hennar er gígur sem er 300 metrar í þvermál og 50 metra djúpur.

Veðurstofa Íslands segir engan gosóróa hafa mælst í þessari skjálftahrinu. Um sé að ræða hreina brotaskjálfta sem verða þegar jörð brestur vegna uppsafnaðrar spennu á flekamörkum. Ef um gosóróa væri að ræða þá væri um að ræða samfelldari skjálfta. 

Læknirinn Tómas Guðbjartsson flaug yfir Skjaldbreið um hádegisbil í dag ásamt ljósmyndaranum Ragnari Axelssyni, betur þekktur sem RAX, og tók meðfylgjandi myndir.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×