Innlent

Bylgja úrsagna úr Þjóðkirkjunni er biskup gagnrýndi notkun á lekagögnum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir biskup á kirkjuþingi  þjóðkirkjunnar í nóvember.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup á kirkjuþingi þjóðkirkjunnar í nóvember. vísir/Anton Brink
Á tveimur dögum í október síðastliðnum skráðu 529 manns sig úr þjóðkirkjunni. Alls sögðu 1.248 sig úr þessu langstærsta trúfélagi landsins frá 23. október til 1. desember.

Í Morgunblaðinu 23. október sagði Agnes M. Sigurðardóttir, biskup þjóðkirkjunnar, að það væri ekki siðferði­lega rétt að stela gögn­um til að af­hjúpa. Viku fyrr hafði sýslumannsembættið í Reykjavík lagt lögbann á umfjöllun Stundarinnar byggða á trúnaðargögnum úr Glitni frá því fyrir hrun.

„Ég er ekki sam­mála því að allt sé leyfi­legt í sann­leiks­leit­inni. Mér finnst til dæmis ekki sið­ferði­lega rétt að stela gögnum og fara á bak við fólk til að afhjúpa mál og leiða sann­leik­ann í ljós,“ sagði biskupinn meðal annars í Morgunblaðsviðtalinu sem vakti hörð viðbrögð. Margir lýstu því yfir að þeir myndu segja sig úr þjóðkirkjunni vegna afstöðu Agnesar.

„Ég hef þraukað lengi í Þjóðkirkjunni þrátt fyrir margvísleg spillingarmál þar sem hafa komið upp við það að gögnum hefur verið lekið þaðan, meðal annars um sjálftöku núverandi biskups. Ætli maður sé ekki kominn á endastöð í þessari samfylgd,“ skrifað blaðamaðurinn Reynir Traustason á Facebook-síðu sína daginn sem viðtalið birtist.

Helgi Seljan sjónvarpsmaður minnti á að barnaníðingurinn Karl Vignir Þorsteinson hefði verið afhjúpaður að hluta til með notkun gagna sem biskup skilgreindi sem stolin. „Þau gögn sýndu meðal annars fram á það hvernig kirkjan sem hún veitir forstöðu, tók undir sinn verndarvæng og verðlaunaði mann sem þá þegar hafði gengist við kynferðisbrotum gegn börnum, og greint hafði verið frá opinberlega,“ skrifaði Helgi á sína Facebook-síðu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×