Erlent

Ráðist á bænahús gyðinga í Svíþjóð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Löggæsla hefur verið hert í kringum bænahús gyðinga víða í Svíþjóð. Gyðingar víðsvegar um heiminn upplifa ógn eftir atburði síðustu viku.
Löggæsla hefur verið hert í kringum bænahús gyðinga víða í Svíþjóð. Gyðingar víðsvegar um heiminn upplifa ógn eftir atburði síðustu viku. vísir/epa
„Ég er mjög hugsandi yfir árásinni á bænahúsið í Gautaborg á laugardaginn og að það hafi verið kynt undir þetta ofbeldi gegn gyðingum á fundi mótmælenda í Málmey,“ sagði Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, í yfirlýsingu í gær.

Ráðist var á bænahúsið með bensínsprengjum á meðan ungmennasamkoma fór þar fram. Áður höfðu farið fram hörð mótmæli gegn gyðingum í Málmey, þar sem um 200 manns voru samankomnir.

Stefan Löfven, formaður Jafnaðarflokksins í Svíþjóð
„Það er ekki pláss fyrir neitt gyðingahatur í samfélagi okkar. Árásarmennirnir þurfa að svara fyrir þetta. Öll lýðræðisöfl verða nú að vinna saman í þágu opins og frjálslynds samfélags, þar sem allir finna öryggistilfinningu,“ segir Stefan Löfven.

Leiðtogi gyðinga í Gautaborg, Allan Stutzinsky, var viðstaddur þegar árásin var gerð á bænahúsið. „Við vissum vel að öryggi samfélags gyðinga væri ógnað, en það er samt áfall að þetta skuli gerast,“ segir Stutzinsky.

Í síðustu viku viðurkenndi Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og flutti sendiráð Bandaríkjanna frá Tel Avív til Jerúsalem. Ákvörðunin hefur valdið talsverðu uppnámi í Mið-Austurlöndum og annars staðar í samfélagi araba.

Stutzinsky segist ekki í vafa um að árásin hafi verið gerð í beinum tengslum við ákvörðun Bandaríkjaforseta.

Öryggið hefur verið hert mjög mikið í kringum bænahús gyðinga víða í Svíþjóð eftir árásina um helgina, að því er sænska ríkisútvarpið (SVT) greinir frá. Lögreglan í Málmey hefur líka aukið öryggisviðbúnað sinn af ótta við að fleiri atvik kunni að verða.

Lögreglan í Gautaborg gerði ítrekaða leit að hinum grímuklæddu árásarmönnum sem köstuðu bensínsprengjunni og á sunnudagsmorgun voru þrír handteknir.

Sænska ríkisútvarpið sagði óljóst hvort fleiri hefðu komið að árásinni. Vitni hafa þó sagt að þau hafi séð í kringum 20 grímuklædda menn með svokallaða molotovkokteila sem hent var inn í garðinn við bænahúsið. 

Segir Bandaríkin óvin Palestínumanna

Víða hafa brotist út átök vegna ákvörðunar Donalds Trump um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael. Breska ríkisútvarpið, BBC, greindi til dæmis frá því að mótmælendur komu saman nærri sendiráði Bandaríkjanna í Beirút í Líbanon um helgina. Þeir voru vopnaðir steinum og kveiktu elda á götum nærri sendiráðinu. Öryggissveitir beittu táragasi gegn mótmælendum. Hanna Gharib, leiðtogi Kommúnistaflokksins í Líbanon, sagði að Bandaríkin væru óvinir Palestínumanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×