Innlent

Sextíu milljónir í að nútímavæða skóla

Sveinn Arnarsson skrifar
Framtíð barna okkar bíður annar veruleiki en okkar sem eldri erum að mati fræðslustjóra.
Framtíð barna okkar bíður annar veruleiki en okkar sem eldri erum að mati fræðslustjóra. vísir/pjetur

Bæjarstjórn Akureyrar áformar að verja sextíu milljónum króna á næstu þremur árum til nútímavæðingar í leik- og grunnskólum bæjarins. Er þetta gert til að styðja við uppfærslu á tæknibúnaði í skólum sem og að efla þekkingu fagfólks innan skólakerfisins.

Á opnum kynningarfundi bæjarstjórnar þann 29. nóvember síðastliðinn kynnti bæjarstjórn þessa hugmynd sína fyrir næstu fjárhags­áætlun sem verður samþykkt síðar í þessum mánuði. Fræðsluráð fagnar þessari ákvörðun bæjarstjórnar og er vinna hafin innan hennar hvernig hægt sé að nýta fjármagnið sem best.

„Við erum nú að fara yfir stöðuna. Skólarnir eru misjafnt á veg komnir með tækjabúnað og okkur skortir enn aukið fjármagn til að geta sinnt því. Einnig þurfum við að efla þekkingu kennara og fagfólks á tækninni og hvernig megi nýta hana sem best í kennslu,“ segir Dagbjört Pálsdóttir, formaður fræðsluráðs og bæjarfulltrúi. „Þetta er fagnaðarefni því að við viljum gera vel í þessum málum hér á Akureyri.“

Soffía Vagnsdóttir, fræðslustjóri Akureyrarbæjar, segir þetta stórt og mikilvægt skref. „Hvert lítið skref skiptir máli í hinum tæknivædda heimi. Þetta er mjög mikilvægt skref í þá átt að nútímavæða kennslu og nýta tæknina í skólastarfi,“ segir Soffía. „Markmiðið er að nútímavæða skólastofuna. Við erum að stíga inn í fjórðu iðnbyltinguna með nýju tungumáli sem er forritun. Líklega verður það svo að yfir helmingur þeirra starfa sem til eru í dag verða ekki til í framtíð barna okkar. Því þurfum við að halda vel á spöðunum.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.