Innlent

Aftur í varðhald þvert á dóm Hæstaréttar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Maðurinn var fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna en síðar með vísan til almannahagsmuna.
Maðurinn var fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna en síðar með vísan til almannahagsmuna. Vísir/Heiða
Erlendur karlmaður var í lok síðustu viku úrskurðaður í gæsluvarðhald til 3. janúar næstkomandi grunaður um tilraun til manndráps. Þremur dögum áður hafði Hæstiréttur fellt úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manninum.

Maðurinn er grunaður um að hafa í tvígang þrengt að öndunarvegi konu á heimili þeirra með þeim afleiðingum að hún missti meðvitund. Í fyrra skiptið var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald á þeim grundvelli að hann gæti torveldað rannsókn málsins en Hæstiréttur féllst ekki á það. Nú er gæsluvarðhaldið með vísan til almannahagsmuna.

„Hann var boðaður í skýrslutöku á fimmtudag og handtekinn að nýju að henni lokinni,“ segir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi. „Dómarinn tók sér sólarhrings umhugsunarfrest og féllst að því loknu á gæsluvarðhald.“

Verjandi mannsins, Sigurður Freyr Sigurðsson, segir að úrskurður dómarans hafi verið kærður til Hæstaréttar. Niðurstaða mun liggja fyrir í þessari viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×