Erlent

Vonarfjall reyndist hæst

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vonarfjall er um helmingi hærra en Hvannadalshnjúkur, hæsta fjall Íslands.
Vonarfjall er um helmingi hærra en Hvannadalshnjúkur, hæsta fjall Íslands. BAS
Nýjar mælingar vísindamanna hafa leitt í ljós að Mount Hope, sem íslenska mætti sem Vonarfjall, er hæsta fjall breska heimsveldsins.

Fjallið, sem rís upp úr landssvæðinu sem Bretar gera tilkall á Suðurskautinu, reyndist vera um 50 metrum hærra en Mount Jackson sem talið hefur verið hæst til þessa.

Vonarfjall er alls um 3239 metrar á hæð en Jackson 3184 er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins. Mount Jackson er jafnframt á Suðurskautinu.

Ákveðið var að ráðast í hinar nýju mælingar til að slá á ótta flugmanna sem hafa lýst áhyggjum af öryggi sínu er þeir fljúga yfir Hvítu heimsálfuna.

„Það eru engir vegir á Suðurskautinu svo að við verðum að fljúga - og ef þú ert að fljúga flugvélum þá er mjög mikilvægt að vita hvar fjöllin eru og hvað þau eru há,“ útskýrir Dr. Peter Fretwell í samtali við BBC.

Talið er að rekja megi nokkur flugslys sem orðið hafa á Suðurskautinu á síðustu árum til lélegra korta. Hinar nýju mælingar varpa ekki aðeins skýrara ljósi á hæð fjalla heimsálfunnar heldur hafa mörg fjöll verið „færð“ til að samsvara betur raunveruleikanum - sum um næstum 5 kílómetra.

Mount Vinson, um 4892 metrar á hæð, er þó áfram langhæsti tindur heimsálfunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×