Innlent

Hlýnar og rignir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það má gera ráð fyrir rigningu víða um land á morgun.
Það má gera ráð fyrir rigningu víða um land á morgun. Vísir/ernir
Ef marka má kort Veðurstofunnar mega Íslendingar gera ráð fyrir nokkrum rauðum hitatölum næstu daga.

Framanaf degi verður víða hægur vindur, léttskýjað og talsvert frost en með vaxandi suðaustanátt á Suður- og Vesturlandi síðar í dag mun þykkna upp og draga úr frosti.

Þá verður suðaustan 13 til 20 m/s kringum miðnætti með snjókomu í fyrstu en síðan rigningu eða slyddu á láglendi. Hitinn verður á bilinu 0 til 5 stig.

Á Norður- og Austurlandi verður þó hægari vindur og úrkomulítið. Þar mun frostið jafnframt minnka. Dregur aftur úr vindi og ætla má að það verði suðaustan 5 til 13 metrar seinni partinn á morgun. Því muni fylgja skúrir eða él - en rigning á Suðausturlandi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Suðaustan 10-18 m/s og rigning eða slydda, en snjókoma til fjalla. Hiti 0 til 5 stig. Hægari vindur á Norður- og Austurlandi, úrkomulítið og minnkandi frost. Suðaustan 5-13 og skúrir eða él undir kvöld, en rigning SA-lands. Hiti kringum frostmark.

Á miðvikudag:

Snýst í norðaustan 8-13 m/s. Slydda eða rigning með köflum og snjókoma til landsins, en styttir upp á Suður- og Vesturlandi. Víða frostlaust við ströndina, annars vægt frost.

Á fimmtudag:

Norðan 8-13 og dálítil él, en léttskýjað sunnan heiða. Frost 0 til 5 stig.

Á föstudag:

Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt og bjartviðri, en él við norðausturströndina. Frost 2 til 12 stig.



Á laugardag:

Suðaustanátt með rigningu, slyddu eða snjókomu, en úrkomulítið norðaustantil á landinu. Hiti kringum frostmark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×