Erlent

Innkalla ungbarnamjólk vegna salmonellu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
26 börn hafa veikst í Frakklandi frá því í byrjun mánaðar.
26 börn hafa veikst í Frakklandi frá því í byrjun mánaðar. Vísir/Getty
Einn stærsti mjólkurframleiðandi í heiminum, franska fyrirtækið Lactalis, hefur innkallað ungbarnamjólk sem fyrirtækið framleiðir og selur víða um heim af ótta við að mjólkin sé sýkt salmonellu.

Heilbrigðisyfirvöld í Frakkklandi segja að tuttugu og sex ungabörn hafi veikst frá því í byrjun mánaðarins og er talið að mjólkinni sé um að kenna. Innköllunin nær til landa á borð við Bretland, Kína, Pakistan og Bangladess.

Um er að ræða hundruð vörutegunda sem seldar eru undir merkjum Milumel, Picot og Celi. 

Talsmaður Lactalis segir að óttast sé að um sjöþúsund tonn af mjólk gæti hafa smitast af salmónellu en óljóst sé hversu mikið af þeirri mjólk sé enn til sölu í búðum eða hefur þegar verið seld.

Talið er að rekja megi sýkinguna til verksmiðju fyrirtækisins í Norður-Frakklandi þar sem mjólkurduftið var þurrkað. Allar vörur sem framleiddar voru í verksmiðjunni frá því í febrúar síðastliðnum hafa verið innkallaðar og unnið er að því að sótthreinsa allan tækjabúnað verksmiðjunnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×