Enski boltinn

Leggur Jóhann Berg upp enn eitt markið? │ Myndband

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Þrír leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Jóhann Berg Guðmundsson verður í eldlínunni með liði sínu Burnley.

Landsliðsmaðurinn hefur verið sjóðheitur að undanförnu og lagt upp fimm mörk í deildinni. Hann verður væntanlega á sínum stað í byrjunarliði Burnley þegar Stoke mætir í heimsókn á Turf Moor.

Stoke steinlá fyrir Tottenham á laugardaginn og er í bullandi fallbaráttu í deildinni á meðan Burnley hefur átt mjög gott tímabil og er í sjöunda sæti, tveimur stigum frá Liverpool í fjórða sætinu.

Botnlið Crystal Palace fær Watford í heimsókn, en Vespurnar hafa verið á þó nokkru flugi og eru í níunda sæti. Palace gerði 2-2 jafntefli við Leicester í síðustu umferð og hefur litið betur út eftir að Roy Hodgson tók við liðinu.

Sjónvarpsleikur kvöldsins verður viðureign Huddersfield og Englandsmeistara Chelsea á John Smith's vellinum í Huddersfield.

Chelsea tapaði óvænt fyrir West Ham í síðustu umferð og er nú 14 stigum á eftir toppliði Manchester City. Nýliðar Huddersfield fóru frábærlega af stað í deildinni en dalaði gengið aðeins. Þeir unnu hins vegar Brighton í nýliðaslagnum um helgina og eru í 12. sæti.

Leikir kvöldsins:

19:45 Burnley - Stoke

20:00 Crystal Palace - Watford

20:00 Huddersfield - Chelsea, beint á Stöð 2 Sport




Fleiri fréttir

Sjá meira


×