Lífið kynningar

Íslendingar í öðru sæti í klámneyslu

Stígamót

Á Stígamótum verðum við í auknum mæli vör við afleiðingar klámvæðingar. Til okkar leitar fleira fólk en áður vegna hópnauðgana auk þess sem við fáum æ fleira fólk til okkar vegna nauðgana í endaþarm. Þetta rekjum við beint til áhrifa kláms. Jafnframt leita einstaklingar til Stígamóta vegna klámnotkunar maka.

Í áranna rás hefur klám breyst mikið. Það verður sífellt grófara og ofbeldisfyllra. Meðallíftími klámleikkonu í starfi er um 6 mánuðir þar sem klám gengur alltaf lengra og reynir á öll þolmörk líkama kvenna(1.)

Á sama tíma hefur aldrei verið auðveldara að nálgast klám. Í ársyfirliti klámveitunnar PornHub kemur fram að Íslendingar eru í öðru sæti yfir klámneyslu sé miðað við höfðatölu. Í íslenskri rannsókn frá árinu 2016 kemur fram að tæplega helmingur stráka í 8.-10. bekk horfir á klám í hverri viku. Um 80% bekkjarsystra þeirra svara því til að þær horfi næstum aldrei á klám. Þegar strákar eru komnir í framhaldsskóla horfa 65% þeirra á klám einu sinni í viku eða oftar á meðan 70% stelpna á sama aldri horfa næstum aldrei á klám.

Klámneysla er því augljóslega mjög kynjuð en á Stígamótum finnum við þó fyrir því að jafnvel þó stúlkurnar séu ekki að horfa á klám þá finni þær fyrir verulegri pressu í kynlífi að taka þátt í athöfnum sem koma beint úr kláminu. Margir strákar virðast halda að það sem birtist í klámi sé lýsandi fyrir hvernig kynlíf eigi að fara fram – og beita þeir því oft sama ofbeldi gagnvart rekkjunautum sínum og sýnt er í kláminu.

Það er bráðnauðsynlegt að bregðast við þessum veruleika og bjóða ungu fólki aðra og betri sýn á hvað felist í kynlífi. Þetta þarf að gerast í gegnum skólakerfið, á heimilum og í almennri samfélagsumræðu. Kynlíf á að byggjast á gagnkvæmri virðingu þar sem þátttakendur virða bæði sín eigin mörk og annarra.

[1] Heimild: Gail Dines 2011. Pornland. How Porn Has Hijiked our Sexuality.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.