Innlent

Hjón dæmd fyrir stórfelldan fjárdrátt á nokkurra ára tímabili

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Hjónin játuðu brot sín skýlaust fyrir dómi.
Hjónin játuðu brot sín skýlaust fyrir dómi. Vísir/Valli
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í síðustu viku hjón í átta og fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir stórfelldan fjárdrátt á nokkurra ára tímabili.



Hjónin voru ákærð í þremur liðum fyrir fjárdráttarbrot í einkahlutafélagi sínu sem úrskurðað var gjaldþrota í febrúar 2014. Alls námu fjárdráttarbrotin rúmum 13 milljónum króna og ná aftur til ársins 2006.



Hjónin voru ákærð í sameiningu í fyrsta liðnum fyrir að hafa á tímabilinu janúar 2010 til janúar 2014, sem eigendur, stjórnarmenn og prókúruhafar ónefnds félags dregið sér samtals 8,4 milljónir króna og millifært inn á persónulega bankareikninga sína. Þar hafi þau notað féð í eigin þágu á sama tíma og félagið var í viðvarandi vanskilum á opinberum gjöldum við Tollstjóraembættið sem ýmist voru gjaldfallin eða gjaldféllu á tímabilinu og félaginu bar að greiða.

Félagið var úrskurðað gjaldþrota 19. febrúar 2014 að kröfu Tollstjóra en ekkert fékkst upp í ríflega 14 milljóna króna lýstar kröfur í búið.

Annað þeirra er síðan í öðrum ákærulið ákært fyrir að draga sér 1,7 milljónir úr félaginu frá desember 2006 til ágúst 2013 til að greiða af persónulegu láni sínu hjá Landsbankanum.

Í þriðja lið var sami einstaklingur ákærður fyrir að draga sér ríflega 3,2 milljónir á tímabilinu janúar 2009 til mars 2013 til að greiða greiðslukortaskuldir sínar.

Hjónin játuðu brot sín skýlaust fyrir dómi og hlaut annað þeirra átta mánaða skilorðsbundið fangelsi en hitt fjögurra mánaða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×