Handbolti

Guðmundur Helgi: Næ í þriðja flokkinn ef þetta heldur svona áfram

Einar Sigurvinsson skrifar
Strákar, ég er að fara að ná í 3. flokkinn !!! Guðmundur Helgi var sótillur í kvöld.
Strákar, ég er að fara að ná í 3. flokkinn !!! Guðmundur Helgi var sótillur í kvöld. vísir/anton
„Einfaldlega til háborinnar skammar. Ég skammast mín fyrir mitt lið,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, sem var að vonum ósáttur eftir tíu marka tap sinna manna, 20-30, gegn Stjörnunni í kvöld.

„Þetta var hræðilegt í alla staði. Allt sem við höfðum unnið að í vikunni fór á fyrstu tíu mínútunum. Mínir menn þurfa bara gjörsamlega í taka sig saman í andlitinu, þetta er ekki boðlegt. Ég fer og næ bara í þriðja flokkinn ef þetta heldur svona áfram.“

Það gekk ekkert upp hjá Fram í kvöld. Sókn, vörn og markvarsla hefur sjaldan litið verr út á tímabilinu en í kvöld. Guðmundur vill einna helst meina að færanýtingin hafi orðið þeim að falli.

„Við gerum alla markmenn sem við mætum að einhverjum heimsmeisturum, hann er með 70 prósent markvörslu í fyrri hálfleik. Það er náttúrlega bara ótrúlegt. Við vorum að opna varnirnar og erum að gera hluti sem var búið að tala um, en svo vantar að klára dæmið. Það að koma boltanum í netið virðist bara vera ómögulegt hjá mínum mönnum núna. Það er skotæfing í næstu viku, það er klárt.“

Tapið í kvöld var fimmta tap Fram í röð í Olís-deildinni. Guðmundur telur þó ekki enn tilefni til að hafa miklar áhyggjur af stöðunni.

„Við erum alveg á jörðinni, þetta er allt í lagi. Áhyggjuefnið er að þetta er ekki Framliðið sem ég þekki. Áhyggjuefnið er að fá þessa menn til að hafa gaman af þessu og sýna smá vilja. Þetta er ekki í boði, það er áhyggjuefni,“ sagði svekktur Guðmundur Helgi  að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×