Erlent

Sagnfræðingar skemmdu stórafmælið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Til stendur að halda veislu á næsta ári. Hvert tilefnið verður er þó ekki alveg vitað á þessari stundu.
Til stendur að halda veislu á næsta ári. Hvert tilefnið verður er þó ekki alveg vitað á þessari stundu. Skírisstjórn MURWEH
Fyrirætlanir um heljarinnar veislu á 150 ára afmæli ástralsks smábæjar eru farnar út um þúfur eftir að í ljós kom að bærinn er í raun 152 ára gamall.

Til stóð að fagna því á næsta ári að 150 ár væru liðin frá því að bærinn Charlesville í norðausturhluta landsins fékk kaupstaðarréttindi sín. Mikil vinna hefur verið lögð í skipulagninguna og engu til sparað í tilefni stórafmælisins.

Hins vegar kom í ljós, þegar sagnfræðingar fóru yfir hin ýmsu gögn í skjalasafni bæjarins, að í raun hafi bærinn fengið réttindi sín árið 1865 - ekki árið 1868 eins og talið hefur verið til þessa.

Bæjarstjórinn segir uppgötvunina vera mikil vonbrigði. „Við vörðum svo miklum fjármunum í þetta og nú komumst við að því að það var til einskis. Þetta var hið mesta áfall fyrir okkur, það get ég sagt þér,“ er haft eftir bæjarstjóranum á vef breska ríkisútvarpsins.

„Við vorum öll að búa okkur undir eitt heljarinar húllumhæ á næsta ári og svo er ártalið ekki einu sinni rétt.“

Bæjarstjórinn segir misskilninginn útskýrast af mismunandi túlkunum fræðimanna og skorti á gögnum en fjöldi skjala sem talin eru hafa geta varpað ljósi á málið eyðilögðust í flóði. Bæjarbúarnir 3300 eru þó ekki alveg af baki dottnir því til stendur að fagna á næsta ári. Hverju verður fagnað á þó enn eftir að ákveða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×