Körfubolti

LaVar Ball búinn að koma tveimur yngstu sonunum til Litháens

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ball-fjölskyldan í öllu sínu veldi.
Ball-fjölskyldan í öllu sínu veldi. vísir/getty
Kjaftaskurinn LaVar Ball er búinn að koma tveimur yngri sonum sínum, LiAngelo og LaMelo, í atvinnumennsku. Ball-bræðurnir sömdu báðir til eins árs við litháíska félagið Prienu Vyautas.

LiAngelo, sem er 19 ára, hætti í UCLA-háskólanum á dögunum eftir að hafa verið settur í bann vegna atviks sem kom upp í æfingaferð í Kína. LiAngelo og tveimur liðsfélögum hans var stungið í steininn fyrir þjófnað.

Donald Trump Bandaríkjaforseti eignaði sér heiðurinn af því að hafa fengið LiAngelo og félaga hans lausa úr fangelsinu. LaVar Ball var á öðru máli og tókst að gera Trump brjálaðan eins og honum einum er lagið.

LaMelo, sem er aðeins 16 ára og þykir betri leikmaður en LiAngelo, hætti í menntaskóla í haust. Pabba hans leist ekki á skólastjórann og nýjan þjálfara körfuboltaliðsins og ákvað því að þjálfa strákinn sjálfur.

Prienu Vyautas situr á botni litháísku deildarinnar og á í miklum fjárhagsvandræðum. Ekki er búist við því að Ball-bræðurnir geri miklar rósir hjá liðinu.

Eldri bróðir LiAngelos og LaMelos, Lonzo Ball, spilar með Los Angeles Lakers í NBA-deildinni.


Tengdar fréttir

Fékk rúman milljarð í fría auglýsingu frá Trump

Er Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað að ráðast á körfuboltapabbann LaVar Ball með látum á Twitter gerði hann sér líklega ekki grein fyrir því að hann væri í raun að gera Ball risastóran greiða.

Ball ætlar að gefa Trump skó

Körfuboltapabbinn yfirlýsingaglaði, LaVar Ball, ætlar að senda Donald Trump Bandaríkjaforseta körfuboltaskó til að reyna að róa hann aðeins eftir deilu þeirra síðustu daga.

Ball-bróðir handtekinn í Kína

LiAngelo Ball, sonur körfuboltapabbans fræga, LaVar Ball, gæti verið á leið í nokkurra ára fangelsi í Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×