Viðskipti innlent

Dregið verði úr ríkisstyrkjum til ósjálfbærra fiskveiða

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Guðlaugur Þór, utanríkisráðherra, flytur erindi í Buenos Aires.
Guðlaugur Þór, utanríkisráðherra, flytur erindi í Buenos Aires. utanríkisráðuneytið
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, kom fram fyrir Íslands hönd á 11. ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í Buenos Aires í Argentínu í gær. Þar ítrekaði hann mikilvægi WTO og hlutverki stofnunarinnar í að efla viðskipti milli ríkja, stuðla að þróun og efnahagslegri uppbyggingu við úrlausn deilumála í viðskiptatengdum málefnum.

„Ég lagði áherslu á að skilaboð ráðherrafundarins væru skýr um að lokið verði við gerð samnings um að draga úr ríkisstyrkjum til ósjálfbærra og skaðlegra fiskveiða strax á næsta ári svo samningurinn geti tekið gildi fyrir árið 2020, eins og kveðið er á um í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Guðlaugur Þór.

Þá fagnaði Guðlaugur því að mikill meirihluti WTO-aðildarríkjanna sé fylgjandi því að jafnréttismál séu sett á dagskrá í umræðum um alþjóðaviðskipti. Yfirlýsing um viðskipti og valdeflingu kvenna, verður kynnt í dag en Ísland hefur verið í fararbroddi við gerð þessarar yfirýsingar.

Ísland leggur einnig áherslu á að WTO vinni að málefnum örsmárra, lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem og að rafrænum viðskiptum og hefjist handa við að draga úr ríkisstyrkjum tengdum jarðefnaeldsneyti.

Á fundinum mun Guðlaugur Þór undirrita samstarfsyfirlýsingu EFTA og Nígeríu ásamt öðrum ráðherrum EFTA-ríkjanna. Hann segir mikil tækifæri felast í því að dýpka samstarf EFTA og Nígeríu um fríverslun. Nígería sé eitt helsta viðskiptaland Íslands og aðalmarkaðurinn fyrir þurrkaðar fiskafurðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×