Viðskipti innlent

Félag atvinnurekenda: Kynferðisleg áreitni og ofbeldi verði ekki liðin

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Visir/Antonbrink
Stjórn Félags atvinnurekenda sendi frá sér ályktun í dag um að kynferðisleg áreitni og ofbeldi á vinnustöðum verði ekki liðin. Segir þar að umræðunni um kynferðislega og kynbundna áreitni í anda #MeToo sé fagnað af félaginu. Eru félagsmenn hvattir til þess að tryggja að slíkt framferði verði ekki liðið í fyrirtækjum þeirra.

Til þess þurfi að móta skýra starfsmannastefnu sem aðgengileg er starfsmönnum. Miðla þurfi upplýsingum til þeirra um það hvert þeir geti snúið sér verði þeir fyrir áreitni, ofbeldi eða einelti og skýr viðurlög þurfa að liggja fyrir.

Að lokum segir að skrifstofa Félags atvinnurekenda sé boðin og búin að aðstoða félagsmenn sem vilja fyrirbyggja áreitni, mismunun og ofbeldi og tryggja að gripið verði inn í með skjótum og skilvirkum hætti, komi slíkt upp í fyrirtækjum þeirra.

Samtök atvinnulífsins hvöttu í gær stjórnendur fyrirtækja til þess að taka á vandanum sem virðist ríkja á fjölmörgum vinnustöðum.

Fjölmargar konur hafa stigið fram í svokallaðri #MeToo byltingu og greint frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir í starfi. Nú þegar hafa konur innan fjölmiðla, heilbrigðisgeirans, sviðlista- og kvikmyndagerðar, stjórnmála, vísinda, tæknigeirans, réttarvörslu og tónlistar stigið fram og lýst reynslu sinni.

Hér er ályktun Félags atvinnurekenda í heild:

„Stjórn Félags atvinnurekenda fagnar þeirri umræðu sem farið hefur fram um kynferðislega og kynbundna áreitni, ofbeldi og mismunun í atvinnulífinu undir merkjum #metoo. Stjórnin hvetur félagsmenn FA eindregið til að tryggja að slíkt framferði líðist ekki í fyrirtækjum þeirra. Til þess þarf meðal annars skýra og aðgengilega starfsmannastefnu. Miðla þarf upplýsingum um hvert starfsmenn geti snúið sér verði þeir fyrir ofbeldi, áreitni eða einelti og skýra ferla þarf til að taka á slíkri framkomu og ákveða viðurlög gagnvart gerendum. Stjórn FA hvetur eigendur og stjórnendur fyrirtækja í félaginu jafnframt til að ganga á undan með góðu fordæmi.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×