Lífið

Sterkari miðbær með léttvíni

Benedikt Bóas skrifar
Miðbær Garðabæjar gæti orðið enn skemmtilegri ef bæjarstjórn Garðabæjar fær sínu framgengt.
Miðbær Garðabæjar gæti orðið enn skemmtilegri ef bæjarstjórn Garðabæjar fær sínu framgengt.
Steinþór Einarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Garðabæ, lagði til á síðasta bæjarstjórnarfundi að bæjarstjórnin sammæltist um að senda ÁTVR erindi þar sem hvatt verði til opnunar á sérverslun með létt vín í miðbænum. Gunnar Einarsson bæjarstjóri sagði á sama fundi frá viðræðum við forsvarsmenn ÁTVR um opnun sérverslunar.

Steinþór segir að næsta skref sé að senda formlegt bréf og láta bæjarstjórann fylgja því eftir. „Það kom frá ÁTVR að það væri vilji þar til að opna sérverslun, hvort sem er með viskí eða annað. Við vorum auðvitað hálffúl að ÁTVR vildi setja verslunina í Kauptún því við vildum að hún kæmi aftur í miðbæinn,“ segir hann.

Steinþór Einarsson
Kauptún er orðinn sjóðheitur reitur og umferðarþunginn hefur aukist til muna með komu Costco í sumar, en fyrir var þar að finna IKEA, Bónus og Toyota-umboðið svo dæmi séu tekin. Nú er þar glæsileg ÁTVR verslun þar sem opið er til 18 alla daga nema sunnudaga auðvitað. Á föstudögum er opið til 19.

Reiturinn er orðinn það vinsæll að skipulagsnefnd bæjarins hefur lýst yfir áhyggjum af auknu umferðar­álagi. Vill formaður nefndarinnar að framkvæmdum við breytingar á gatnakerfinu verði hraðað.

Steinþór segir að fyrst ÁTVR hafi verið búið að opna á möguleikann á sérverslun og miðbæ Garðabæjar vanti vínbúð sé ekki úr vegi að fyrsta sérverslun ÁTVR rísi þar. „Fyrst ÁTVR var búið að opna á þennan möguleika þá vildum við senda áskorun um að opna sérverslun með léttvín í miðbænum.“

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir að ekkert hafi verið ákveðið hvort sérverslunin muni rísa. Málið sé í ferli. „Ef við fáum erindi þá verður það skoðað en það liggur ekki fyrir nein ákvörðun um að fara í svoleiðis verkefni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×