Erlent

Neyðarástand á Ítalíu eftir mannskæða sprengingu í Austurríki

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sprengingin var öflug.
Sprengingin var öflug. Vísir/Getty
Yfirvöld á Ítalíu hafa lýst yfir neyðarástandi vegna skorts á gasi eftir að mannskæð sprenging varð í gasveri í Austurríki fyrr í dag. Gasverið er mikilvæg dreifingarstöð fyrir gas í Evrópu.

Að minnsta kosti einn lést í sprengingunni og átján eru særðir. Sprengingin varð um klukkan 8.45 að staðartíma en töluverður eldur braust út vegna sprengingarinnar. Slökkviliði hefur tekist að ráða niðurlögum eldsins. Lögregla segir að lítið sé vitað um ástæður sprengingarinnar, utan þess að líklega hafi hún verið af tæknilegum völdum, frekar en af mannavöldum.

Gasverið tekur á móti gasi víðsvegar frá Evrópu og dreifir því áfram. Fyrirtækið sem rekur gasverið segir að starfsemi þess muni raskast um ófyrirséðan tíma. Gasverð hækkaði víða í Evrópu eftir að fréttir af sprengingunni brutust út, þar á meðal um 97 prósent í Ítalíu.

Iðnaðarráðherra Ítalíu segir að ríkið standi nú frammi fyrir alvarlegum orkuvanda vegna sprengingarinnar á meðan unnið er að því að tryggja framboð af gasi eftir öðrum leiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×