Erlent

Tveggja ára fangelsi fyrir ögrandi tónlistarmyndband

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Shyma er 25 ára gömul og heitir réttu nafni Shaimaa Ahmed.
Shyma er 25 ára gömul og heitir réttu nafni Shaimaa Ahmed. Skjáskot
Egypska poppstjarnan Shyma hefur verið dæmd til tveggja ára fangelsisvistar vegna tónlistarmyndbands þar sem hún sést dansa á undirfötunum og borða banana.

Shyma er 25 ára gömul og heitir réttu nafni Shaimaa Ahmed. Hún var handtekin í síðasta mánuði eftir að myndbandið vakti hneykslan í heimalandi hennar.

Hún var í dag fundin sek um að hafa hvatt til ólifnaðar og fyrir að gefa út ósæmilegt myndband. Leikstjórinn var einnig dæmdur í tveggja ára fangelsi.

Áður en hún var handtekin hafði Shyma beðið fólk afsökunar sem hafði móðgast.

„Ég bjóst ekki við því að þetta myndi gerast og að ég yrði fyrir svo miklum árásum frá fólki,“ skrifaði hún á Facebook síðu sem síðan hefur verið eytt.

Myndbandið umdeilda má sjá hér fyrir neðan.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem egypskir dómstólar dæma svona í málum listafólks þar í landi.

Á síðast ári voru þrír dansarar dæmdir til sex mánaða fangelsisvistar fyrir að hvetja til ólifnaðar í tónlistarmyndbandi.

Þá á ein söngkona yfir höfði sér stefnu fyrir að hafa „dreift ögrandi efni“ vegna þess að hún sagði að fólk gæti orðið veikt af því að drekka úr ánni Níl.

Sherine Abdel Wahab var stefnt í síðasta mánuði eftir að myndband fór í dreifingu þar sem hún var beðin um að syngja lagið Mashrebtesh Men Nilha eða „Hefur þú drukkið úr ánni Níl?“ á tónleikum.

Hún svaraði með orðunum „að drekka úr Níl myndi láta mig fá blóðögðuveiki,“ sem er sjúkdómur af völdum sníkjuorms í blóðrás.

Samtök tónlistarmanna í Egyptalandi tilkynntu í gær að Abdel Wahab væri bannað að koma fram á tónleikum í Egyptalandi í tvo mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×