Viðskipti innlent

Salan á Medis í höndum Citibank

Haraldur Guðmundsson skrifar
Höfuðstöðvar lyfjasölufyrirtækisins Medis eru í Hafnarfirði.
Höfuðstöðvar lyfjasölufyrirtækisins Medis eru í Hafnarfirði. Vísir/Eyþór
Ísraelska samheitalyfjafyrirtækið Teva er sagt hafa ráðið hinn bandaríska Citibank til að selja lyfjasölufyrirtækið Medis fyrir marslok 2018. Medis er til húsa í Hafnarfirði og af 100 manna starfsliði fyrirtækisins starfa um 85 hér á landi.

Samkvæmt frétt Goinpharma hækkuðu hlutabréf í Teva um fimm prósent við opnun markaða 1. desember. Þann dag hafi komið upp kvittur um að Citibank hefði verið fenginn til verksins. Tekjur Medis í fyrra hafi numið 300 milljónum dala, um 31 milljarði króna, og rekstrarhagnaður (EBITDA) verið um 50 milljónir evra eða rúmir sex milljarðar.

Markaðurinn fjallaði í ágúst síðastliðnum um að starfsmönnum Medis hefði verið tilkynnt að til stæði að selja starfsemina. Teva eignaðist Medis þegar fyrirtækið tók yfir Actavis Generics, samheitalyfjahluta Allergan, síðasta sumar. Medis selur lyf og lyfjahugvit Actavis til annarra lyfjafyrirtækja um allan heim eða alls um 190 vörur sem seldar eru í yfir eitt hundrað löndum undir merkjum viðskiptavina Medis. Fyrirtækið var stofnað hér á landi árið 1985. Í fréttinni kom einnig fram að samkvæmt heimildum fréttaveitu Bloomberg gæti fyrirtækið verið metið á milli 500 til 1.000 milljónir Bandaríkjadala. – hg, kij






Fleiri fréttir

Sjá meira


×