Erlent

Dönsku S-lestirnar verða án lestarstjóra

Atli Ísleifsson skrifar
Mikill fjöldi íbúa Kaupmannahafnar og nágrennis nýtir sér hinar rauðu S-lestir til að komast til og frá vinnu.
Mikill fjöldi íbúa Kaupmannahafnar og nágrennis nýtir sér hinar rauðu S-lestir til að komast til og frá vinnu. Wikipedia commons
Dönsku ríkisstjórnarflokkarnir hafa náð samkomulagi við Danska þjóðarflokkinn og De Radikale um að ný kynslóð S-lestanna svokölluðu verði lestarstjóralausar og reksturinn settur í útboð. DR segir frá.

Mikill fjöldi íbúa Kaupmannahafnar og nágrennis nýtir sér hinar rauðu S-lestir til að komast til og frá vinnu og er ætlunin að kaupa nýrri tegund af lestum og að tíðni ferða verði mun þéttari en nú er. Mun tíðni ferða aukast um 24 prósent og er gert ráð fyrir að farþegum muni stóraukast. Ekki liggur fyrir um kostnað áætlunarinnar.

DSB, ríkislestarfélag Danmerkur, rekur nú S-lestirnar en ríkisstjórnin vill nú opna fyrir aðkomu einkaaðila að rekstrinum. Samkvæmt samkomulagi stjórnarinnar mun rekstur lestaumferðar yfir Eyrarsundi færast til Skånetrafiken í Svíþjóð.

Danski samgönguráðherrann Ole Birk Olesen segir að fyrirhugaðar breytingar á rekstri S-lestanna sé sú mesta frá því að þær hófu akstur árið 1934. 

Jafnaðarmannaflokkurinn, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, hefur gagnrýnt áætlun ríkisstjórnarinnar og vill meina að hana megi skýra af hugmyndafræði hægriflokkanna frekar en hagkvæmni.

Smíði neðanjarðarlestarkerfis Kaupmannahafnar hófst í kringum aldamótin en lestirnar þar eru nú þegar lestarstjóralausar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×