Handbolti

Seinni bylgjan: Gísli væri ekki að fara til Kiel án FH

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eins og greint var frá í síðustu viku fær FH ekkert fyrir Gísla Þorgeir Kristjánsson sem ákvað að semja við þýska stórliðið Kiel. Hann gengur til liðs við félagið í sumar, eftir að samningur hans við FH rennur út.

FH-ingar geta sótt um uppeldisbætur til EHF fyrir Gísla Þorgeir en eins og Arnar Freyr Theodórsson, umboðsmaður, ræddi í Akraborginni á X-inu þýðir lítið fyrir FH-inga að kvarta ef ekki hafi verið tekið á þessum málum í samningi hans.

Sjá einnig: Umboðsmaður um mál Gísla Þorgeirs: Getur ekkert kvartað

Gísli Þorgeir átti góðan leik fyrir FH þegar að liðið vann Aftureldingu á mánudag en eins og greint var frá í síðustu viku þá er hann á leiðinni til Kiel í sumar.

Landsliðsmaðurinn ungi fer þó frítt til Þýskalands þar sem samningur hans við FH rennur út í sumar. Mál hans voru rædd í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport á mánudagskvöldið.

„Samningar eru samningar,“ sagði Sebastian Alexandersson. „Kannski höfðu þeir feðgar upplýsingar [Kristján Arason og Gísli Þorgeir] um það að Kiel myndi ekki borga fyrir hann og velt fyrir sér stöðunni.“

Sebastian segist hafa viljað sjá að FH fengi eitthvað fyrir piltinn. Gunnar Berg Viktorsson tók undir þetta.

„Þetta er lenska í handbolta. Ef þú átt möguleika á að komast í stórlið þá lætur þú ekkert stoppa þig. Þetta snýst allt um það,“ sagði Gunnar Berg.

„En við óskum honum auðvitað til hamingju með þennan samning. En það gæti þurft að breyta þessum hugsunarhætti, að láta uppeldisfélagið fá smá pening fyrir að vera búnir að leggja allt sitt í þetta. Í félögunum eru fólk sem er að berjast á hverjum degi í því að safna peningum.“

Sebastian segir að það sé hægt að líta á þetta frá sjónarhorni beggja aðila.

„Gísli vildi komast til Kiel og það er frábært að það tókst. En hann væri ekki að fara til Kiel ef ekki væri fyrir FH. Það sama á við um alla þá leikmenn sem eru að fara út.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×