Skoðun

Víðsýni og einbeiting í stjórnmálum – blað hefur verið brotið

Gunnar Árnason skrifar
Stjórnmálamönnum er misjafnlega vel til lista lagt að vera víðsýnir og einbeittir, rétt eins og okkur mannfólki almennt. Færa má rök fyrir því að við séum frekar klaufsk í þessum efnum. Greinarhöfundur er þess þar af leiðandi fullviss að umræddir eiginleikar teljast til mannkosta sem eru mikilsverðir.

Það bar svo við fyrir skemmstu í kosningum til Alþingis að kjósendur dreifðu atkvæðum sínum með eftirtektarverðum hætti. Margir óskuðu sér annarrar niðurstöðu, á meðan sumum varð tíðrætt um að úrslit kosninga væru engan veginn sanngjörn og enn aðrir vona nú heitt og innilega að þetta lagist allt saman í næstu kosningum. Okkur hættir því öllum til að líta fram hjá því hvernig hlutirnir eru í raun og veru, en einblína þess í stað á hvernig við óskum, vonum eða teljum að hlutirnir eigi að vera. Það er ekki vænlegt til árangurs, það hefur sýnt sig svo ekki verður um villst.

Greinarhöfundur er ekki í nokkrum vafa um að í nýafstöðnu ferli við myndun nýrrar ríkisstjórnar hafi ráðið úrslitum að tekist var á við stöðuna eins og hún blasti við að loknum kosningum, og með opnum huga. Í umræddu ferli náðu í það minnsta tveir stjórnmálamenn að lyfta sér á hærra plan með eftirtektarverðum hætti. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, ásamt Svandísi Svavarsdóttur, þingmanni hreyfingarinnar, sem nú hafa tekið við hlutverkum forsætis- og heilbrigðisráðherra, sýndu víðsýni, einbeitingu og hógværð í aðkomu sinni að myndun nýrrar ríkisstjórnar. Fyrir þetta ber að þakka.

Af umræddri atburðarás má jafnframt draga feiknamikinn lærdóm sem greinarhöfundur er sannfærður um að verði gerð skil í annálum þegar frá líður, þegar horft er til samsetningar nýrrar stjórnar og sáttmála sem nú liggur fyrir að starfa eftir. Blað hefur verið brotið í íslenskri stjórnmálasögu.



Höfundur er félagi í VG.




Skoðun

Sjá meira


×