Skoðun

Getur maður gefið það sem er dýrmætast í lífinu?

Bjarni Gíslason skrifar
Á þessum tíma er ys og þys í búðum og verslunarmiðstöðvum, mörg leitandi augnaráð. Hvað á ég að gefa í ár? Var ekki einhver sem sagði „það sem þú vilt að aðrir gefi þér skalt þú þeim gefa“ eða misminnir mig? Svo þarf líka að pakka öllum gjöfunum inn. Menn vanda sig svo sem mismikið við það. Hvað er annars dýrmætast í lífinu? Getur maður gefið það? Hvaða umbúðir fara utan um kærleika og frið? Hvernig pakka ég inn sátt og farsæld, virðingu og samþykki? Von?

Hjálparstarfið vinnur að öllum þessum þáttum í starfi á Íslandi og erlendis. Nú stendur yfir jólasöfnun fyrir vatni á svæðum í Eþíópíu og Úganda þar sem vatnsskortur er mikill. „Vatn er von“ er slagorðið, það skilja að minnsta kosti allir að án vatns er engin von. Þannig er vatn frábær jólagjöf sem gefur von. Þátttaka í jólasöfnun tryggir líka konum á sömu svæðum tækifæri til að setja á laggirnar smástarfsemi sem tryggir þeim tekjur sem þær ráða yfir. Það tryggir farsæld barna og fjölskyldnanna í heild. „Eftir að ég opnaði búðina mína hef ég fengið virðingu í samfélaginu og meira að segja maðurinn minn virðir mig meira en áður. Hjónaband okkar, samskipti og kærleikur er miklu meiri eftir að ég fór að standa á eigin fótum,“ segir kona í Jijiga-héraði í Eþíópíu. Væri ekki gaman að gefa „hjónabandssælu“ með því að taka þátt í jólasöfnun Hjálparstarfsins?

Svo er líka hægt að gefa gjafabréf á gjofsemgefur.is, þar er hægt að gefa vatn, geitur, hænur, neyðarpakka og jólagjöf til barna á Íslandi, svo 5 bréf séu nefnd af 44.

Með þessu öllu er starf Hjálparstarfsins styrkt, starf sem snýst um að efla fólk og samfélög til að skapa sína eigin farsæld, von og drauma.

Gleðilega hátíð og takk fyrir stuðninginn.

 

Höfundur er framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×