Sport

Stuðningsmaður fór í mál við sitt félag út af mótmælum leikmanna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Leikmenn Saints fyrir leik á Wembley í vetur.
Leikmenn Saints fyrir leik á Wembley í vetur. vísir/getty

Saga ársins í NFL-deildinni er mótmæli leikmanna í þjóðsöngnum fyrir leiki er þeir hafa margir hverjir farið niður á hné.

Mótmæli sem allir hafa skoðun á og hefur skipt þjóðinni í tvo hópa. Afskipti Donalds Trump Bandaríkjaforseta af málinu hafa svo gert það enn stærra. Hann vildi setja alla leikmenn í bann fyrir að fara niður á hné.

Nú hefur fyrsti stuðningsmaður liðs í NFL-deildinni farið í mál við sitt uppáhaldsfélag út af þessum mótmælum leikmannanna. Sá heitir Lee Dragna og er ársmiðahafi hjá New Orleans Saints.

Sá vill fá ársmiðann sinn endurgreiddan og einnig að félagið greiði lögfræðikostnað hans. Dragna segist hafa keypt miðana til þess að skemmta sér með fjölskyldu sinni. Hann segist aldrei hafa gert það ef hann vissi að leikmenn ætluðu að nota leikinn til þess að mótmæla. Í mótmælaskyni hefur hann ekki mætt á völlinn síðan í annarri leikviku.

Forráðamenn Saints hafa ekki tjáð sig um málið en eru sagðir taka það mjög alvarlega. Það sem stuðningsmaðurinn hefur ekki tekið eftir er að leikmenn Saints hafa alls ekki verið að fara mikið niður á hné í vetur. Þeir standa frekar þétt saman.

NFL


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.