Innlent

Heilbrigðisráðherra styður aðgerðir kvenna í læknastétt

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Vísir/Ernir
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist styðja aðgerðir kvenna í læknastétt til að uppræta kynbundið áreiti, ofbeldi og mismunun í starfi. Hún hvetur konur og karla í heilbrigðisstéttum til að taka höndum saman og uppræta þennan alvarlega vanda. 

„Kynbundið ofbeldi, áreiti og mismunun á ekki að líðast, hvorki á vinnustöðum né annars staðar í samfélaginu,“ segir Svandís í frétt á vef velferðarráðuneytisins

Hún tekur einnig undir mikilvægi þess að stjórnendur taki á þessum málum af festu og að til séu skýrir verkferlar til að bregðast við þegar á reynir. 

Konur í læknastétt sendu frá sér yfirlýsingu á mánudag undir myllumerkinu #ekkiþagnarskylda. 354 konur í læknastétt skrifuðu undir yfirlýsinguna og henni fylgdu tíu sögur af áreitni, ofbeldi og mismunun. Ein konan sagði frá því að hafa orðið fyrir tilraun til nauðgunar á vinnustað. 

Í yfirlýsingunni sagði að gerendur séu oftast karlkyns samstarfsmenn sem eru ofar í valdastiganum, en að einnig séu dæmi um áreitni frá yngri samstarfsmönnum og frá skjólstæðingum. Þá séu dæmi þess að aðrar starfsstéttir taki þátt í kynbundnu áreitni og mismunun.


Tengdar fréttir

Nauðgunartilraun í lok vaktar

Konur í læknastétt sendu í dag frá sér yfirlýsingu þar sem þær kalla eftir breytingum á starfsumverfi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×