Innlent

Hafa enga þolinmæði fyrir ólykt í Hafnarfirði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Íbúar á Völlunum eru ósáttir við óþef sem berst inn í hverfið.
Íbúar á Völlunum eru ósáttir við óþef sem berst inn í hverfið. Vísir/eyþór
„Bæjarstjórinn var mjög skýr á því að þolinmæði bæjarins vegna lyktarmengunarinnar væri engin,“ segir Einar Bárðarson, samskiptastjóri Hafnarfjarðar, um fund fulltrúa Hafnarfjarðar með Gámaþjónustunni

Þetta kemur fram í tölvupósti frá Einari vegna fréttar í Fréttablaðinu í fyrradag um kvartanir íbúa á Völlunum í Hafnarfirði undan mikilli ólykt sem stundum berst inn í hverfið frá moltugerði sem Gámaþjónustan starfrækir rúma tvo kílómetra frá hverfinu.

Einar segir bæjastjórann og formann skipulags- og byggingaráðs hafa fundað með Gámaþjónustunni 29. nóvember. Gámaþjónustan hafi sagst þegar hafa innleitt nýja verkferla sem ættu nánast að öllu leyti að koma í veg fyrir ólykt frá starfseminni.

„Fulltrúar Gámaþjónustunnar sögðust hafa skilning á því og væntu þess að aðgerðir þeirra myndu koma í veg fyrir hana. Eftir fundinn er það von bæði bæjaryfirvalda og Gámaþjónustunnar að frekari lyktarmengun berist ekki frá starfseminni,“ segir í orðsendingu samskiptastjórans.

Gunnar Bragason, framkvæmdastjóri Gámaþjónustunnar, sagðist í Fréttablaðinu í gær vera bjartsýnn á að komið yrði í veg fyrir lyktarmengun með breyttu vinnulagi við moltugerðina. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×