Erlent

57 ríki krefjast viðurkenningar Palestínu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Múslimar víða um heim hafa mótmælt ákvörðun Trumps.
Múslimar víða um heim hafa mótmælt ákvörðun Trumps. Nordicphotos/AFP
Leiðtogar 57 múslimaríkja undirrituðu í gær yfirlýsingu þar sem kallað var eftir því að alþjóðasamfélagið viðurkenndi sjálfstæði Palestínu og að hinn hernumdi austurhluti Jerúsalem væri höfuðborg ríkisins. Ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að öll Jerúsalem væri viðurkennd höfuðborg Ísraelsríkis var jafnframt dæmd dauð og ómerk í augum leiðtoganna 57.

Alls hafa 136 af 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna viðurkennt sjálfstæði Palestínu. Á meðal ríkja sem ekki hafa gert það eru Ástralía, Austurríki, Belgía, Danmörk, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Bretland, Ísrael og Bandaríkin.

Á fundi leiðtoganna í gær sagði Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, að milliganga Bandaríkjanna um friðarviðræður Ísraela og Palestínumanna væri óásættanleg þar sem Bandaríkjamenn stæðu með Ísraelum. Þess í stað ættu Sameinuðu þjóðirnar að hafa milligöngu.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, tók einnig til máls. Sagðist hann lofa því að standa uppi í hárinu á „bandarískum yfirgangsseggjum“.

Í yfirlýsingunni segir enn fremur að Bandaríkin reyni vísvitandi að grafa undan friði á svæðinu og með gjörðum sínum ýti Bandaríkjamenn undir öfgar og hryðjuverkastarfsemi. Bandaríkjamenn verði ábyrgir fyrir afleiðingum ákvörðunar sinnar, dragi þeir hana ekki til baka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×