Erlent

Theresa May gat ekki smalað köttunum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, gat ekki tryggt sér stuðning flokksmanna sinna.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, gat ekki tryggt sér stuðning flokksmanna sinna. vísir/epa
Bretland Meirihluti breska þingsins samþykkti í gær breytingartillögu á Brexit-frumvarpi sem gekk út á að nauðsynlegt verði að bera lokaútgáfu samningsins við Evrópusambandið um væntanlega útgöngu Breta undir þingið. Ther­esa May forsætisráðherra barðist gegn tillögunni og hefur áður sagt að lögbundin trygging um slíka atkvæðagreiðslu gæti komið í veg fyrir hnökralausa útgöngu úr sambandinu.

Það voru þingmenn Íhaldsflokksins, flokks May, sem tryggðu meirihluta í málinu og var flokkurinn því klofinn í málinu. Dominic Grieve, þingmaður Íhaldsflokksins, var flutningsmaður tillögunnar. Alls kusu 309 þingmenn með en 305 á móti.

Þetta er í fyrsta skipti sem ríkisstjórnin býður ósigur á þinginu í málum sem lúta að Brexit-stefnunni, að því er BBC greinir frá. Segir jafnframt í umfjöllun miðilsins að gagnrýnendur þessarar ákvörðunar hafi í umræðum á þinginu sagt að með þessu væri verið að trufla ferlið og reyna að binda hendur ríkisstjórnarinnar.

Mikil óvissa ríkti í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar. Sagði Nick Eardley, blaðamaður BBC, stuttu áður en þingmenn greiddu atkvæði að útlit væri fyrir að stór hluti uppreisnargjarnra Íhaldsmanna myndi frekar sitja hjá en greiða atkvæði með tillögunni. Íhaldsmennirnir Paul Masterton og George Freeman greindu sjálfir frá því að þeir hygðust sitja hjá.

„Það olli okkur vonbrigðum að þingið skyldi samþykkja þessa breytingartillögu þrátt fyrir þær tryggingar sem við höfum nú þegar gefið,“ sagði talsmaður ríkisstjórnarinnar eftir atkvæðagreiðsluna í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×